Norræn barokkveisla með suður-amerísku ívafi

Fertugasta hátíð Sumartónleika í Skálholtskirkju hefst með vikulangri Norrænni barokkveislu sunnudaginn 29. júní kl. 20.

Sænski hópurinn Ensemble Villancico leikur suður-amerískt barokk með dönsurum upp úr handritum sem legið hafa í yfir 300 ár í klaustri í bænum Ibarra í Ekvador.

Mánudaginn 30. júní mun Nordic Affect flytja glænýja tónlist á barokkhljóðfæri, þ.á.m. verk eftir Maríu Huld Markan, Úlf Hansson og Önnu Þorvaldsdóttur.

Einnig verða tónleikar á dagskrá með hinum sænska barokksérfræðingi Ann Wallström, sem var fyrsti leiðari Bachsveitarinnar í Skálholti. Skálholtskvartettinn kemur einnig fram þessa fyrstu viku Sumartónleika, með Jaap Schröder í fararbroddi sem leikur nú á Sumartónleikum í 22. skipti.

Fimmtudaginn 3. júlí kl. 20 verður svo hátindi vikunnar náð með úrslitakeppni EAR-ly – Third Nordic Young Early Music Competition, en þar koma fram þrír framúrskarandi ungir hópar ungs fólks sem flytur barokktónlist á upprunaleg hljóðfæri. Keppendurnir eru hóparnir Bastard Barock, Ensemble Flautino og Marini-Ollberg duo og koma frá Svíþjóð og Finnlandi.

Auk tónleikanna verða dagana 30. júní – 2 júlí opnir masterklassar og fyrirlestrar með virtum barokksérfræðingum eins og Jaap Schröder, Ann Wallström, Johannes Boer, Peter Pontvik og Höllu Steinunni Stefánsdóttur.

Dagskrá sumarsins
Sumartónleikar, sem eru nú haldnir í 40. skipti, hefjast 29. júní og standa fram yfir Verslunarmannahelgi með yfir 30 tónleika, fyrirlestra og masterklassa.

Eftir opnunarviku hátíðarinnar koma fram Kór og Kammersveit Listaháskóla Íslands, sem flytja fyrirlestur og tónleika tileinkaða Þorkeli Sigurbjörnssyni. Danski hópurinn Music for the Mysteries og Kammerkór Suðurlands, flytja nýtt verk eftir danska tónskáldið Hanne Tofte Jespersen, sem byggir á keltneskri sögu og tvinnar saman tónlist, dans, leiklist og sjónlist. Voces Thules flytur ásamt Lenu Willemark íslenska miðaldatónlist ásam sænskri þjóðlaga tónlist á tónleikum með spunaívafi. Bachsveitin í Skálholti verður á sínum stað með hinn danska Peter Spissky sem leiðara og Elfu Rún Kristinsdóttur og Jóhönnu Halldórsdóttur sem einleikara og -söngvara. Caput flytur tónleika tileinkaða Hafliða Hallgrímssyni. Kammerkórinn Hljómeyki flytur verk eftir staðartónskáld sumarsins, Pál Ragnar Pálsson, en hann hefur samið nýtt verk við Ljóðaljóðin fyrir tilefnið. Sumrinu lýkur á franska barokkhópnum Copro di Strumenti, með Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur í fararbroddi, en munu m.a. sýna listir sínar með tónleikunum “Djúkox”, þar sem fiðluleikari hópsins leyfir tónleikagestum að panta lög á fóninn, en hann geymir í erminni fiðlupartítur og sónötur Bachs með tölu.

Fyrri greinÞrettán bílum vísað til endurskoðunar
Næsta greinMörkunum rigndi á Selfossi