Njálumót í Þórbergssetri í kvöld

Njálumót verður haldið í Þórbergssetri á Hala í Suðursveit í kvöld. Tveir góðkunningjar og Njáluaðdáendur, Bjarni E. Sigurðsson á Torfastöðum og Fjölnir Torfason frá Hala ætla að leiða saman hesta sína og fjalla um Njálu svo og tengingar Skaftfellinga við Njálu.

Bjarni hefur í farteskinu myndir listakonunnar Þórhildar Jónsdóttur, frá Lambey, en hún hefur teiknað myndir af helstu sögupersónum Njálu. Þar birtast í fyrsta skipti myndir sem eiga að sýna persónuleika og ímynd þessarra þekktu persóna í sögu og bókmenntum íslensku þjóðarinnar og er það án efa mjög forvitnilegt. Bjarni hefur verið með erindi um Njálu víða að undanförnu og hafa myndirnar vakið umræður og eftirtekt.

Njálumót er liður í því að gera hlut fornbókmennta stærri í heimi nútímamanna svo og í menningarferðaþjónustu á Íslandi. Það er því ekki úr vegi að taka upp á ný Njáluumræður á Hala og halda umræðunum af baðstofuloftinu áfram, þar sem ,, Njáll var vitur en samt heimskur að láta brenna sig inni, Skarphéðinn fimur og mikill kappi en ósvífinn, Kári stórkostlega snjall, Hallgerður óþokki, Gunnar óskiljanlega heimskur að snúa aftur og Flosi svalur en góður í raun,” svo vitnað sé lauslega í Suðursveitarbækur Þórbergs.

Fyrri greinSíbrotamaður dæmdur í 12 mánaða fangelsi
Næsta greinLokað milli Víkur og Klausturs