Njáludagskrá í Þorlákshöfn í kvöld

Fjallað verður um Njálssögu og persónur hennar frá ýmsum skemmtilegum hliðum á dagskrá á Bæjarbókasafni Ölfuss í kvöld klukkan 18:00.

Sigurður Hróarsson, forstöðumaður Sögusetursins, segja frá ýmsum skemmtilegum atvikum úr Njálssögu, en Sigurður er sérlega fróður um söguna og segir skemmtilega frá.

Síðan mun Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur og leikskáld, kynna leikverkið „Gestaboð Hallgerðar“, en það var sett upp á Sögusetrinu síðasta sumar og fékk feikigóðar viðtökur. Ákveðið hefur verið að setja það aftur upp í sumar og hefjast sýningar í maí.

Að lokum mun Gunnhildur Kristjánsdóttir, einn af verkefnastjórum Njálurefilsins, kynna verkefnið sem vakið hefur mikla athygli. Refillinn er 50 cm á hæð og verður að endingu 80 metra langur. Myndefnið er hannað og teiknað af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur myndlistarkonu og byggja myndirnar allar á Njálssögu. Hægt er að fara í Sögusetrið og taka þátt í að sauma út þennan mikla refil. Auk þess að kynna verkefnið mun Gunnhildur útskýra refilssauminn.

Fyrri greinOpinn súpufundur á Sólheimum
Næsta greinMargir áhugasamir um afþreyingu ferðamanna