Nemendafélögin frumsýna í dag

Tvö leikrit eru frumsýnd á Suðurlandi í dag en þar eru að verki leikfélög nemendafélaganna í ML og FSu.

Mennskælingar á Laugarvatni frumsýna kl. 15 í Aratungu leikritið Sko. Verkið gerist á heimavistinni í ML þar sem upp koma deilur á meðal nemenda um hvaða tónlistarstefna sé best og út frá deilunum kemur hugmynd um að halda keppni.

Leikstjórar eru Árný Fjóla Ásmundsdóttir og Brúsi Ólason en tónlistin er samin af þeim Herði Má Bjarnasyni og Steini Daða Gíslasyni.

Verkið verður sýnt víðsvegar um Suðurland á næstu vikum.

Leikfélag Nemendafélags FSu hefur síðustu vikur æft leikritið Alla leið heim sem er leikgerð á kvikmynd Coen bræðra, O’Brother Where Art Thou. Frumsýningin verður í Hólmaröst á Stokkseyri kl. 20 í kvöld.

Leikstjóri sýningarinnar er Árni Kristjánsson og Helgi Rafn Ingvarsson sér um tónlistarstjórn.

Verkið fjallar um þrjá fanga sem strjúka úr fangelsi til að komast heim og finna meintan fjársjóð sem einn þremenninganna skildi eftir. Leiðin er löng og þyrnum stráð og fangarnir lenda í hinum ýmsu ævintýrum á leið sinni.

Allar sýningar NFSu verða í Hólmaröst á Stokkseyri utan hvað ein sýning verður sett upp í fangelsinu á Litla-Hrauni.

Fyrri greinHvetja til sameiningar UMFÍ og ÍSÍ
Næsta greinHörkukeppni framundan um helgina