„Náttúruhamfarir á striga“ – Jakob Veigar sýnir í Gallerí Fold

Jakob Veigar Sigurðsson.

Hvergerðingurinn Jakob Veigar Sigurðarson opnar sýninguna Óreiða í Gallerí Fold í Reykjavík laugardaginn 26. janúar kl. 16.

Jakob Veigar er ungur og upprennandi listamaður sem hefur óstjórnlega ástríðu fyrir málaralist. Abstrakt-verk hans sýna meðal annars kraftmikillar sprengingar og litaflóð sem næstum flæða út fyrir strigann. Þó svo að stundum megi greina landslag eða uppstillingu í verkum hans lúta þau eigin reglu og lögmálum þyngdaraflsins er á stundum ýtt til hliðar. Áhorfandans býður að sogast inn í þessar „náttúruhamfarir“ á striganum.

Málun verksins er jafnmikilvægur gjörningur og lokaútkoman og lýsir Jakob Veigar því hvernig þessi krossferð í gegnum fagurfræði og hefð er brotinn upp og sett saman aftur á striganum: „Hugrekki skiptir öllu máli þegar ég mála og verð ég að treysta eigin líkama og ákvörðunum á því augnabliki er gjörningurinn á sér stað því það skiptir öllu máli fyrir niðurstöðuna. Eftir stendur málverk sem hefur eignast sitt eigið líf.“

Jakob Veigar útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Hann hélt til Vínarborgar til áframhaldandi náms, þar sem hann býr og starfar nú. Jakob Veigar hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum hér á landi sem og erlendis. Nýverið tók hann þátt í stórri sýningu í Shanghai í Kína og fyrirhuguð er önnur sýning þar í vor.

Þetta er fyrsta einkasýning hans í Gallerí Fold og stendur sýningin til 9. febrúar.

Eitt verka Jakobs Veigars sem er á sýningunni. Ljósmynd/Gallerí Fold
Fyrri greinAldrei fleiri tekið þátt í Mannamótum
Næsta greinUnnið að friðlýsingu búsetulandslags í Þjórsárdal