„Náttúran kveikir í mér sköpunarkraftinn“

Margrét Elfa Ólafsdóttir.

Listakonan Margrét Elfa Ólafsdóttir er ættuð að vestan er býr nú á Selfossi ásamt ástinni sinni. Verkin hennar sækja sterkan innblástur í íslenska náttúrunni og líður Margréti hvergi betur en í mikilli nálægð við móður náttúru.

Í desember verður Margrét með myndlistarsýningu í Listagjánni í Bókasafninu á Selfossi ásamt góðri vinkonu sinni þar sem þemað er Hafið.

„Ég myndi lýsa öllu sem ég geri sem óði til náttúrunnar og umhverfis míns. Náttúran er það sem kveikir í mér sköpunarkraftinn og viðheldur honum. Hún gefur mér hugarróna sem ég þarf til að geta sest niður og teiknað, brennt á tré eða hvað það er sem mér dettur í hug að fást við þá stundina,“ segir Margrét í samtali við sunnlenska.is.

Tvær skeljar.

Margrét segir að þegar hún flutti á Snæfellsnesið fyrir fjórum árum, til þess að elta ástina og draumana, þá hafi öll sköpun byrjuð á fullu. „Ég tengdist náttúrunni og öllu þar svo sterkum böndum að ég gat varla farið þaðan yfir helgi án þess að finna fyrir söknuði. Við kærasti minn byggðum okkur lítið hús þar sem við eigum enn á Arnarstapa. Hann er frá Selfossi sem varð til þess að við fluttum hingað fyrir hálfu ári síðan,“ segir Margrét sem líkar vel að búa á Selfossi ásamt sambýlismanni sínum, Guðna Þorberg.

Krabbaklær.

Margrét hannar undir nafninu MBM – sem stendur fyrir Made by Margrét – og eru verkin hennar sérlega fjölbreytt en eiga það þó öll sameiginlegt að sækja innblástur til náttúrunnar. „Ég byrjaði á að brenna rúnasett á tré fyrir fjórum árum undir merkinu MBM og selja í örfáum verslunum. Síðan komu strax á eftir seglar með galdrastöfum, te sem ég geri úr íslenskum jurtum og eyrnalokkar úr kuðungum og krabbaklóm. Ég nota mikið hráefni úr náttúrunni, þá aðallega fjörunum öllum fyrir vestan og nú hér í nágrenninu líka.“
Þessa dagana er Margrét aðallega að mála úr vatnslitum og akrýl og verða þau verk verða til sýnis í Listagjánni út desember.

„Þar mun ég sýna með góðvinkonu minni sem býr í Hveragerði en er frá Hellnum á Snæfellsnesi, Katrínu Lilju Kristinsdóttur. Þemað hjá okkur er Hafið. Við eyðum miklum tíma saman í fjörunum fyrir vestan og svo hérna hjá Eyrarbakka og Stokkseyri að tína hráefni sem við getum nýtt okkur í sköpunina okkar. Katrín verður með verk sem er vefnaður úr netaböndum og reipum sem skolast í fjörurnar,“ segir Margrét að lokum.

MBM á Facebook

MBM á Instagram

Heiðlóa.
Fyrri greinHæfnisetur ferðaþjónustunnar fjármagnað til 2023
Næsta greinVeiðimaður í sjálfheldu við Skaftá