Nakinn maður á Selfossi í kvöld

Leikfélagið Snúður og Snælda, leikfélag eldri borgara í Reykjavík er á leikferð um Suðurland í október. Í kvöld sýnir félagið gamanleikritið Nakinn maður og annar í kjólfötum á Selfossi.

Formaður leikfélagsins Snúðs og Snældu er Hörður S. Óskarsson en hann var formaður Leikfélags Selfoss á árum áður og sundkennari á Selfossi.

Leikritið Nakinn maður og annar í kjólfötum er eftir Dario Fó en þess má geta að það var fyrsta verkið sem Leikfélag Selfoss sýndi í Litla leikhúsinu við Sigtún, þar sem sýningin fer fram kl. 20:00.
Miðaverð er 2000 kr.

Leikritið gerist að næturlagi þar sem tveir götusóparar eru við vinnu sína. Þeir spjalla saman um hin ólíkustu efni frá hversdagslegu gríni til heimspekilegra atriða og trúarbragða.
Ýmsir skrautlegir einstaklingar eiga leið hjá. Þarna koma fram auk götusóparanna vændiskonur, nakinn maður, lögregluþjónn, og blómasali.

Leikstjóri er Bjarni Ingvarsson.

Fyrri greinMikill viðbúnaður vegna bílveltu
Næsta greinFrostrósir loksins á Selfossi