Myndlistarnemar Fjölbrautaskóla Suðurlands halda uppteknum hætti og setja upp sýningu í opinberu sýningarrými utan skólans. Það eru nemendur í framhaldsáföngum sem fá þjálfun í uppsetningu og kynningu á eigin verkum. Að þessu sinni eru það nemendur í áfanganum Maður og efni sem sýna í Listagjánni á Bókasafni Árborgar 23. feb. – 15. mars. Verkin eru unnin á haustönn 2023.
Í áfanganum Maður og efni er fengist við módelteikningu. Mannslíkaminn er teiknaður frá öllum hliðum í ýmsum stellingum, ýmist líkamspartar eða öll manneskjan. Fyrirmyndirnar eru mest megnis lifandi módel en einnig ljósmyndir og teikningar. Verkin sýna manninn í einhvers konar umhverfi og eru unnin með ýmis konar aðferðum þar sem mismunandi stílbrigði frá mismunandi tímabilum og heimshlutum eru áhrifavaldar.
Fjölbreytt starf
Það er margt á seiði á listalínu FSu og áhugi nemenda mikill. Boðið er upp á fjölbreytt úrval áfanga sem opnir eru öllum nemendum burtséð frá því hvort þeir eru á listalínu eður ei. Það er alltaf gefandi og gaman fyrir kennsluna að fá eldra fólk með áhuga á skapandi greinum inn í hinn hefðbundna nemendahóp.
Meðal hins mikla úrvals af skapandi áföngum sem boðið er upp á í FSu ásamt myndlist má nefna stafræna smiðju (Fablab), ljósvakamiðlun, leiklist, textíl hönnun, grafíska hönnun og grafíska miðlun og öflugt kórstarf.
Við bílastæði FSu eru 100 m langur veggur sem undanfarin 8 ár hefur verið myndskreyttur af nemendum í veggjalistaráfanga. Á þessum árum hefur hann nokkrum sinnum fengið nýjar myndir á sig og nú í vor mun um helmingur hans ganga í endurnýjun lífdaga með nýjum listaverkum þar sem þemað heldur áfram að vera bókmenntir, sögur og ævintýri. Sú hlið veggjarins sem vísar að íþróttasvæði er einnig myndskreytt að hluta og þar er íþróttaþema. Það er um að gera fyrir fólk að gera sér ferð á þessa ókeypis listasýningu.
Það er stefna okkar að miðla verkum nemenda sem víðast og til þess höfum við vefsíðu á Facebook sem heitir FSu myndlist, nýsköpun og miðlun. Þar má sjá úrval verka úr þeim áföngum sem við kennum. Bæði þjónar síðan sem kennsluefni og ekki síður fyrir listunnendur að njóta.
Myndlistarkennarar FSu
Ágústa og Anna Kristín