Myndlistarnemar úr FSu sýna í Listagjánni

Myndlistarnemar í Fjölbrautaskóla Suðurlands halda uppteknum hætti að setja upp sýningu í opinberu sýningarrými utan skólans.

Nemendur í framhaldsáföngum fá þá þjálfun í uppsetningu og kynningu á eigin verkum. Að þessu sinni eru það nemendur í teikningu á þriðja þrepi sem sýna í Listagjánni í Bókasafninu á Selfossi dagana 10. til 30. september.

Verkin eru unnin á vorönn 2020. Þau sýna mismunandi skyggingu hluta og náttúruforma. Þá eru gerðar tilraunir með blindteikningu og hlutfallaskiptingu í andlitsmyndum. Teiknaðar ýmis konar byggingar út frá 2-3 hvarfpunktum og settar í fjarvíddarlandslag, að endingu er öllu blandað saman til að ná fram súrrealískum áhrifum.

Í tilkynningu frá myndlistarkennurunum Lísu og Ágústu segir að margt sé á seiði í listalínu FSu og áhugi nemenda mikill.

„Boðið er upp á fjölbreytt úrval áfanga sem opnir eru öllum nemendum burtséð frà því hvort þeir eru á brautinni eður ei. Það er alltaf gefandi og gaman fyrir kennsluna að fá eldra fólk með áhuga á skapandi greinum inn í hinn hefðbundna nemendahóp. Meðal hins mikla úrvals af skapandi áföngum sem boðið er upp á í FSu ásamt myndlist má nefna stafræna smiðju, Fablab, kvikmyndun, leiklist, textíl hönnun, grafíska hönnun og grafíska miðlun. Veggjalistin er sýning sem alltaf er opin áhorfendum en veggurinn við bílastæði skólans var allur endurnýjaður í vor þegar gefið var grænt ljós á starf innan skólans eftir fyrstu covid bylgjuna. Nemendur og kennarar í myndlist lögðust á eitt og útkoman er frábær myndlistarsýning,“ segja þær Lísa og Ágústa.

Fyrri grein„Kærkominn sigur við erfiðar aðstæður“
Næsta greinLeikurinn hófst í Hveragerði en lauk í Kópavogi