Myndlistarnemar sýna í Listagjánni

Ljósmynd/Aðsend

Myndlistarnemar í Fjölbrautaskóla Suðurlands halda nú uppteknum hætti að setja upp sýningu í opinberu sýningarrými utan skólans en þeir opnuðu í síðustu viku sýningu í Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi.

Það eru nemendur í framhaldsáföngum sem fá þjálfun í uppsetningu og kynningu á eigin verkum en að þessu sinni eru það nemendur í áföngunum Myndlist og Straumar og stefnur á þriðja þrepi sem eiga verk á sýningunni.

Í áfanganum Myndlist eru tekin fyrir nokkur myndefni, uppstilling, andlit og fantasíur og þau unnin í fjölbreytta stíla og með fjölbreyttum aðferðum.

Í áfanganum Straumar og stefnur er unnið með nokkrar fagurfræðilegar kenningar, innihald verka og útlit. Í báðum áföngum eru lokaverkefni með öllum þáttum og þá er málað með akrýl á striga.

Sýningin er opin til 30. september næstkomandi. Verkin eru unnin á vorönn 2021.

Fyrri greinAlexander Íslandsmeistari í unglingaflokki
Næsta greinAusturvegur lokaður vegna trjáfellinga