Myndir ársins í Gerðarsafni

Árleg sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands "Myndir ársins" opnaði í Gerðarsafni í Kópavogi í dag.

Á sýningunni er að finna bestu blaða- og tímaritaljósmyndir og myndskeið ársins 2010. Fjöldi ljósmynda frá Suðurlandi er á sýningunni, m.a. mynd ársins en hana tók Brynjar Gauti Sveinsson af bændum á Núpi undir Eyjafjöllum að smala kálfum og koma þeim í hús vegna öskufoks.

Guðmundur Karl Sigurdórsson á sunnlenska.is á tvær myndir á sýningunni, báðar í flokknum íþróttir.

Dómnefnd valdi úr um 1300 innsendum ljósmyndum frá 34 ljósmyndurum.

Á jarðhæð safnsins opnaði í dag sýning Þorkels Þorkelssonar, ljósmyndara, sem nefnist Burma: Líf í fjötrum. Sýningarnar verða opnar til 10. apríl.