
Það var frábær stemning hjá þeim þúsundum Selfyssinga og gesta þeirra sem sóttu sléttusönginn í Sigtúnsgarði í gærkvöldi. Gunnar Ólason taldi í sléttusönginn eftir að Andri eldgleypir hafði kveikt með tilþrifum í varðeld.
Ýmis verðlaun voru veitt og kom fáum á óvart að Lyngheiðin var valin skemmtilegasta gatan á Selfossi. Þetta er annað árið í röð sem Strumpaheiðin tekur titilinn og í fjórða sinn frá upphafi. Strumparnir vilja koma því á framfæri að það eru tvö hús til sölu í götunni.
Bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi lýkur í dag en það er Knattspyrnufélag Árborgar sem stendur fyrir hátíðinni.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá stemningunni í Sigtúnsgarði í gærkvöldi.























