Mynda- og minningabók Mats Wibe Lund endurútgefin

Mats ásamt syni sínum, Christopher Lund, sem einnig starfar sem ljósmyndari. Ljósmynd/Aðsend

Frjáls eins og fuglinn – mynda- og minningabók Mats Wibe Lund er nú komin í nýrri útgáfu þar sem Mats hefur bætt við fjölda mynda og sett inn nafnaskrá sem vantaði í frumútgáfuna.

Mats er þekktur fyrir átthagamyndir sínar sem skreyta heimili, fyrirtæki og stofnanir um land allt. Myndirnar hafa sögulegt heimildagildi, einkum þær sem eru meira en hálfrar aldar gamlar.

Bókin sem hér um ræðir var fyrst gefin út af forlaginu Skruddu í sambandi við sýningu sem Mats hélt í Norræna húsinu haustið 2018 og vakti mikla athygli. Líklegt má telja að nýja útgáfan á Frjáls eins og fuglinn verði ekki síður vinsæl en sú fyrri enda til hennar vandað eins og Mats er þekktur fyrir.

Bókina má panta beint frá höfundinum á mats@mats.is. Fyrir þá sem sem vilji kynna sér myndasýninguna frá 2018, þá má gera það hér.

Í bókinni rekur Mats minningar sínar, en jafnframt er bókin yfirlit um ljósmyndaferil hans sem spannar meira enn 60 ár. Mats fæddist í Ósló i Noregi 1937. Hann kom fyrst til Íslands sumarið 1954 og vann þá við fornleifauppgröft í Skálholti. Áhuga hans á Íslandi má rekja til þess tíma er faðir hans rak fyrirtæki sem var staðsett í sama húsi og sendiráð Íslands í Ósló.

Ljósmyndamenntun sína fékk Mats í norska flughernum, í Frakklandi og í Þýskalandi. Hann
fluttist alkominn til Íslands árið 1966 ásamt eiginkonu sinni, Arndísi Ellertsdóttur, en hafði þá margsinnis dvalist hér um lengri eða skemmri tíma. Framan af starfaði hann jöfnum höndum sem blaðamaður og ljósmyndari. Hann hefur skrifað á annað þúsund blaðagreinar um margvísleg íslensk málefni, fyrir blöð og tímarit í Evrópu og Bandaríkjunum.

Um tíma rak Mats ljósmyndaverslun og portrettstúdíó í Reykjavík, en hin seinni ár hefur hann helgað sig átthagamyndatökum úr lofti. Hann á nú mikið safn mynda, jafnt af
þétttbýlisstöðum sem og af flestum sveitabýlum og eyðibýlum á Íslandi. Úr tölvuvæddu
ljósmyndasafni sínu dreifir hann landkynningar- og skreytingamyndum um allan heim.
Mats hefur oft sýnt myndir sínar á einkasýningum og samsýningum bæði hér heima og
erlendis.

Bláfjöll skíðabrekkur áður enn að lyfturnar komu. Ljósmynd frá 1972. Ljósmynd © Mats Wibe Lund
Hrafntinnusker séð til suðurs. Ljósmynd © Mats Wibe Lund
Christopher með myndavélina við eldgosið á Fimmvörðu hálsi 2010. Ljósmynd © Mats Wibe Lund
Fyrri greinNökkvi áfram á Selfossi
Næsta greinFramrás bauð lægst í aðkomuveg á Klaustri