Moskvít stefnir á plötu á nýja árinu

Hljómsveitin Moskvít.

Sunnlenska rokkhljómsveitin Moskvít sendi frá sér nýtt lag í dag. Lagið ber nafnið Human Error og er það titillagið á fyrstu plötu hljómsveitarinnar sem mun koma út á næsta ári.

Þetta er annað lagið sem Moskvít sendir frá sér en hljómsveitin hefur verið starfandi í rúmt ár. Sveitin er sunnlensk í húð og hár en hana skipa þeir Sigurjón Óli Arndal Erlingsson söngvari og bassaleikari, Alexander Örn Ingason á trommur, Jón Aron Lundberg á píanó og Valgarður Uni Arnarsson á gítar.

Platan Human Error mun koma út í tveimur hlutum á næsta ári, fyrri hlutinn í apríl og sá síðari í maí eða júní. Platan er þema plata sem snertir á ýmsu, til dæmis siðfræði, menningu og heimspeki, sem er miðlað í gegnum raðmorðingja.

Hér fyrir neðan má hlýða á lagið Human Error. Lag og texti er eftir Sigurjón Óla, upptökur fóru fram hjá Kjartani Guðmundssyni í Dynur Recording Studio í Hveragerði og Neil Pickles hjá Reveal Sound sá um hljómjöfnun.

Fyrri greinVegagerðin kynnir drög að tillögu að matsáætlun vegna færslu þjóðvegarins í Mýrdal
Næsta greinLeitað að nýjum rekstraraðila í Tryggvaskála