Moskvít með nýjan óð til verkafólksins

Hljómsveitin Moskvít.

Hljómsveitin Moskvít sendir í dag frá sér nýtt lag af væntanlegri plötu sinni, Superior Design, en lagið heitir Beautiful Life.

Þetta er fyrsta lagið frá Moskvít þar sem Guðmundur Helgi Eyjólfsson og Paolo Decena grípa í gítarinn, Guðmundur á rythmagítar og Paolo rífur í sólógítarinn. Ásamt þeim Sjonna, Alexander og Jóni Aron móta þeir nýtt andlit hljómsveitarinnar.

Moskvít hefur verið að spila lagið á tónleikum hér og þar um landið og fengið frábærar viðtökur. Meðal annars komu þeir óvænt fram á Kótelettunni um síðustu helgi og fengu góðar móttökur.

Eru hlutirnir að breytast eða erum við að breytast?
„Beautiful Life er taktfast og líflegt en fjallar þó ekki beint um hvað lífið er fallegt, heldur breytingar á umhverfi og hvort þær séu alltaf til hins betra. Er rangt að sakna hlutanna eins og þeir voru? Með aldrinum á fólk það til að hætta að þekkja eigið samfélag. Eru hlutirnir að breytast eða erum við að breytast? Til hins verra eða betra? …það er erfitt að segja,“ segja þeir Moskvítliðar og bæta við að lagið sé óður til verkafólksins. Fólksins sem byggði samfélagið upp en passar ekki í staðlað kerfið og er þar af leiðandi deyjandi stétt.

„Áður fyrr var fólk sjálfbærara; það þurfti að geta gengið í öll störf, vera sveigjanlegt og búa yfir seiglu. En nú til dags einbeitir fólk sér frekar að einhverju einu sem oft á tíðum gerir það ósjálfbjarga í svo mörgu öðru. Það er varhugavert að ganga með öll egg í einni körfu vegna þess að þó að sérþekkingu fylgi styrkleikar þarf maður að beygja sig undir sérþekkingu og tíma annarra.“

Þetta heyrist í laginu þar sem kassagítarinn spilar inn lagið og það þróast áfram þar sem hljóðfærin byggja út frá tónunum sem hann lagði. Kassagítarinn fær síðan minna hlutverk, minna pláss. En það er eitt sem má ekki gleyma; hvað setti tóninn?

Fyrri greinSaga saumuð á refil
Næsta greinEinstakir tónleikar með Sigurði Flosasyni