Mörk í Listasafni Árnesinga

Ný sýning verður opnuð í Listasafni Árnesinga laugardaginn 24. október kl. 14:00. Á sýningunni Mörk má sjá verk eftir myndlistarmennina Eygló Harðardóttur, Jónu Hlíf Halldórsdóttur, Karlottu Blöndal og Ólöfu Helgu Helgadóttur.

Heiti sýningarinnar hefur jafn margar og ólíkar tilvísanir og verkin en ein tilvísunin er í skóginn sem leggur grunn að pappírsgerð sem er það efni sem þær allar vinna með. Heitið getur líka þýtt einskonar línu eða þröskuld sem þær sem skapendur og við sem áhorfendur þurfum að yfirstíga.

Þó að efniviður verkanna sé pappír þá er hann af ýmsum gerðum og úrvinnslan margbreytileg. Eygló höfðar til tilfinninga í sínum verkum með litum og formgerðinni, Jóna Hlíf vinnur með beinskeittar samfélagslegar tilvísanir, Karlotta vinnur óræð stór vatnslitaverk og Ólöf Helga glæðir verk sín skemmtilegum gáska. Verkin sem ýmist eru tvívíð eða þrívíð skapa áhugavert samtal og samhengi sín á milli og koma á óvart.

Allir velkomnir á opnunina og þá verða listamennirnir á staðnum. Sýningin stendur þar til safninu er lokað þann 14. desember en heldur síðan áfram á nýju ári.

Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18 og aðgangur er ókeypis.