Móri hrekkir í leikhúsinu

Óútskýranlegir hlutir hafa gerst á æfingatímabilinu hjá Leikfélagi Selfoss sem frumsýnir í kvöld spunasýninguna Hið dularfulla hvarf Hollvinafélagsins í leikhúsinu við Sigtún.

Andi Móra, álfa og trölla svífur yfir vötnum í leikhúsinu en sýningin fjallar um hóp fólks sem stofnar félagsskap utan um sunnlenskan þjóðsagnaarf. Í vettvangsferð hópsins á söguslóðirnar fara hins vegar dularfullir atburðir að gerast og einn og einn týna ferðalangarnir tölunni.

Kampholts-Móra bregður fyrir í sýningunni og segir leikstjórinn, Gunnar Björn Guðmundsson, að ýmsir skrýtnir hlutir hafi gerst á æfingatímabilinu. Tölva sem geymdi myndir frá æfingum hafi t.d. hrunið en eigandi hennar leikur Móra í sýningunni.

„Við fengum Þór Vigfússon í heimsókn á æfingu til að segja okkur sögur og ég tók þær upp á diktafón. Eftir þá heimsókn hefur diktafónninn tekið upp á því að kveikja sjálfur á sér án þess að við höfum fundið skýringu á því,” segir Gunnar Björn í samtali við sunnlenska.is. “Ég nota tölvu mikið í þessari vinnu og ég hef ekki þorað að keyra upptökurnar inn í tölvuna. Við berum auðvitað virðingu fyrir Móra og ég þori ekki að taka neina áhættu með þetta,” segir Gunnar og hlær.

Leikhópurinn hefur þó ekki kippt sér upp við hrekki Móra enda góður andi í húsinu og æfingatímabilið hefur gengið vel. „Við lögðum upp með þá hugmynd að við ætluðum að nota þjóðsögurnar. Spunaferlið er mjög skemmtilegt og kemur manni alltaf á óvart. Það er lygilegt að sjá lokapunktinn miðað við hvað við byrjuðum berrössuð,” segir leikstjórinn sem er mjög ánægður með útkomuna.

„Þetta er fjölskyldusýning en þetta eru auðvitað þjóðsögurnar og þær eru ekki allar fallegar. Ég held samt að þetta sé við allra hæfi, nema kannski þeirra allra yngstu. En þetta er allt grín og á léttu nótunum og við förum frjálslega með sögurnar,” segir Gunnar Björn að lokum.