Minningartónleikaröð hefst í kvöld

Í kvöld kl. 20 hefst tónleikaröð í Skálholti til minningar um Helgu Ingólfsdóttur, semballeikara, er lést á síðasta ári.

Helga stofnaði Sumartónleika í Skálholtskirkju sumarið 1975 og verður hennar minnst með tónleikaröð um helgina.

Í kvöld mun Bachsveitin í Skálholti undir stjórn Peters Spissky flytja dagskrá undir yfirskriftinni „Ítölsk strengjasveifla” með verkum eftir Vivaldi, Scarlatti, Corelli, Händel og Bach.

Á laugardag hefst dagskráin með minningarerindi Kolbeins Bjarnasonar um Helgu. Kl. 15 verða tónleikar í kirkjunni undir heitinu „H.I. In memorian”, en það er nafn á nýju verki eftir Óliver Kentish sem hann tileinkar minningu Helgu.

Á þessum tónleikum mun Hedwig Bilgram orgelleikari og fyrrverandi kennari Helgu í München ásamt Guðrúnu Óskarsdóttur, semballeikara, Mörtu Halldórsdóttur, sópransöngkonu o.fl. flytja, auk verksins eftir Óliver, tónlist eftir Bach, Genzmer, Händel og Walther.

Kl. 17 verða tónleikar með Bachsveitinni í Skálholti sem bera titilinn „Bach í Skálholti” en samnefnd hljómplata kom út fyrir margt löngu með leik Helgu Ingólfsdóttur og Manuelu Wiesler. Á tónleikunum verða fluttir konsertar og kantata eftir J. S. Bach. Einsöngvari verður Marta G. Halldórsdóttir sópran, og einleikarar Hedwig Bilgram á orgel, Peter Spissky á fiðlu og Peter Tompkins á óbó.

Á sunnudag 15 verður dagskráin fimmtudagskvöldsin endurtekin og kl. 17 verður guðsþjónusta þar sem Hedwig Bilgram og Marta G. Halldórsdóttir munu sjá um tónlistarflutning. Prestur verður sr. Egill Hallgrímsson.

Stofnaður verður minningarsjóður um Helgu Ingólfsdóttur í tengslum við tónleikana og verður hann kynntur nánar í Skálholti tónleikadagana.

Nánari upplýsingar um flytjendur og um hátíðina í heild er að finna á vef Sumartónleika, www.sumartonleikar.is.