Minningartafla baráttumanns

Bókaútgáfan Sæmundur undirbýr nú útgáfu á skáldsögu eftir Kristján L. Guðlaugsson (1949-2023) blaðamann sem einnig var þekktur baráttumaður vinstri manna að fornu og nýju.

Kristján bjó seinustu ár sín á Spáni með eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigríði Huld Sveinsdóttur. Andlát hans bar brátt að í júní síðastliðnum og var undirbúningur skáldsögunnar Draumur Jórsalafarans þá á lokastigi. Til þess að ljúka því verki hafa útgáfan og fjölskylda Kristjáns tekið höndum saman um söfnun áskrifenda sem skráðir verða á minningarskrá fremst í bókinni. Skráningargjald sem er 5000 kr. verður innheimt um leið og nýprentuð bók verður afhent viðkomandi. Áætlaður útgáfutími er í október 2023.

Hægt er að skrá sig með tölvupósti á saemundur_utgafa@gmail.com eða á skráningarsíðu.

Sagan Draumur Jórsalafarans gerist í Þýskalandi á krossferðatímum og segir af ungum pílagrími sem dvelur á leið sinni í suður-þýskum smábæ og tekst þar á við höfuðskepnur lífs síns, ástina, valdboð mannanna og görótta fortíð.

Fyrri greinTölvulistinn nýr samstarfsaðili Símans á Selfossi
Næsta greinMidgard hlýtur samfélagsviðurkenningu Rangárþings eystra