Minning um förukonu

Sýningin VIGGA verður opnuð í gamla skólahúsinu frá Litla-Hvammi í Byggðasafninu í Skógum í dag.

Viðfangsefni sýningarinnar er bernskuminning Jónu Sigríðar Jónsdóttur um förukonuna Vigdísi Ingvadóttur.

Vigga, en það var hún alltaf kölluð, fæddist í Norður-Hvammi í Mýrdal árið 1864. Hún hafði snemma yndi af að flakka á milli bæja og fékk til þess nokkurt frelsi þótt hún ætti að heita vistráðið hjú. Vigga var vel gefin kona, minnug og orðheppin og næm á ljóð en vanræksla og misrétti í æsku er talið hafa átt þátt í að móta hana til þess sérstaka lífs sem hún lifð.

Vigga hafði sérstakt dálæti á skrauti og sterkum litum. Hún skreytti fötin sín gjarnan með tölum og alls konar glingri sem varð á vegi hennar. Væri henni gefinn fallegur efnisbútur saumaði hún hann oft í fötin sín þar sem henni þótti hann fara vel. Þetta gerði hana afar sérstæða í útliti og ólíka öllu öðru fólki. Þegar þetta er haft í huga má sjá að í Viggu bjó listamaður. Hún fann sköpunarþrá sinni farveg í því eina sem hún átti, henni sjálfri.

Vigga lést árið 1957 að Norður-Hvoli í Mýrdal en þar hafði hún átt heima síðustu tuttugu ár ævinnar. Með henni hvarf ógleymanleg einstök kona, síðasta förukonan í Mýrdal.

Jóna Sigríður Jónsdóttir er fædd 1943 í Vík í Mýrdal. Hún lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1980-1985 og lauk námi frá textíldeild skólans. Jóna hlaut Pamela Sanders-styrkinn 2005 og fór þá til náms við The Haystack Mountain School of Arts and Crafts. Árin 1985-1991 tók Jóna þátt í rekstri textílverkstæðisins V og 1991-2003 var hún ein af stofnendum og eigendum Sneglu Listhúss. Jóna hefur tekið að sér ýmis verkefni, t.d. hönnun á mynstri til fjöldaframleiðslu fyrir Epal.

Vigga er fyrsta einkasýning Jónu en hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum, hér heima og erlendis.

Sýningin stendur til 1. júlí og verður opin á opnunartíma safnsins kl. 9.00–18.00.

Fyrri grein„Það er allt fallegt” í Gullkistunni
Næsta greinHamar í toppsætið