Útför Sigurgeirs Hilmars Friðþjófssonar fer fram kl. 15:00 í dag frá Selfosskirkju.
Kynni okkur Sigurgeirs hófust fyrst þegar ég skráði mig á leiklistarnámskeið hjá Leikfélagi Selfoss, sem var haldið í Dvergnum fyrir margt löngu, leiðbeinandi var Sigurgeir Hilmar.
Okkur varð vel til vina við fyrstu kynni og sú vinátta hefur nú staðið í yfir fimmtíu ár. Margt höfum brallað saman á þessum tíma og leikið saman í mörgum leikritum hjá Leikfélagi Selfoss. Það fyrsta var Sjö stelpur og svo í mörgum verkum eftir það. Síðasta verkið sem ég lék í með Sigurgeiri var Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar, þar sem við Sigurgeir lékum börnin ásamt Elínu Arnoldsdóttur heitinni.
Við fórum saman í leikhúsferðir erlendis og innanlands. Við fórum saman í ótal bíltúra, fórum á landsleiki í fótbolta í kröfugöngur 1. maí og við stunduðum kaffihús grimmt. Mér er mjög minnisstætt þegar hann bauð mér á kaffihúsið Babalú á Skólavörðustíg. Við sátum undir súð, þar sem gamla herbergið hans var þegar hann bjó í því húsi með Stefaníu fóstru sinni og sagði mér skemmtisögur af gestum og gangandi og af fjölskyldu hans. Þar var af nægu að taka.
Sigurgeir sagði einstaklega vel frá og sá skondnu hliðina á lífinu og tilverunni. Hlátur og gleði einkenndi okkar vináttu fyrst og fremst. Til marks um það er þegar við vorum á hóteli á bresku eyjunni Jersey, við heyrðum bara ensku og frönsku við morgunverðinn. Þannig að við vorum óhrædd við að skemmta okkur við að búa til sögur um fólkið sem var að borða með okkur góðan enskan morgunmat, þar sem við vorum viss um að engin skildi orð í íslensku.
Við hlógum okkur máttlaus yfir eigin fyndni. Þegar líða tók á vikuna og við fórum að spjalla við fólkið og kynnast því sagði einn Bretinn að það væri augljóst að við værum ekki hjón. Nú, sagði ég, hvers vegna það? „Engin hjón hlæja svona mikið snemma á morgnana, bara vinir geta það.“
Í þessari ferð skruppum við líka yfir til Frakklands með svifnökkva og skoðuðum kastalann Mont Saint Michael. Var það mikið ævintýr og ýmsar uppákomur þar sem við gátum skemmt okkur yfir lengi. Þar koma við sögu eplasíder og ostar og eru þær sögur bara sagðar í góðra vina hópi. Þetta magnað ferðalag endaði svo í London þar sem við sáum tvær frábærar sýningar, The Cats og The Phantom of the Opera. Við gátum hlegið okkur máttlaus yfir því að ég datt á hausinn í mínu fínasta pússi og háhæluðum skóm á leiðinni í leikhúsið og náði mér í gott glóðarauga. Bæði vorum við haldin ófararfögnuði.
Við fórum í margar svona ferðir og flestar eru ógleymanlegar. Já, það var aldrei lognmolla hjá okkur. Sigurgeir var mér einstaklega góðir vinur á góðum stundum og erfiðum.
Bless bless, minn kæri góði vinur. Þín verður sárt saknað.
Kristín Steinþórsdóttir