Minning Aretha Franklin heiðruð í Skyrgerðinni

Sara Blandon. Ljósmynd/Aðsend

Laugardagskvöldið 18. janúar kl. 21:00 munu hæfileikaríkir tónlistarmenn leiða saman hesta sína á Skyrgerðinni í Hveragerði til að heiðra minningu sálarsöngkonunnar Aretha Franklin.

Aretha, sem oft hefur verið nefnd drottning sálartónlistarinnar, lést árið 2018 en á tónleikunum verða flutt hennar frægustu lög, á borð við R.E.S.P.E.C.T., Think og (You Make Me Feel Like) A Natural Woman auk margra annarra þekktra og minna þekkta laga.

Það er söngkonan Sara Blandon sem ætlar að bregða sér í hina goðsagnakenndu skó Franklin en ásamt henni verða á sviðinu Vignir Þór Stefánsson, píanó, Jóhann Hjörleifsson, trommur, Ingibjörg Turchi, bassi, Hróðmar Sigurðsson, gítar, Rósa Guðrún Sveinsdóttir og Michael Weaver á saxófón, Vilhjálmur Ingi Sigurðarson, trompet og bakraddasöngkonurnar Helga Hrönn Óladóttir og Guðrún Arngrímsdóttir.

Miðasala er á tix.is en nánari upplýsingar eru á Facebook-viðburði tónleikanna.

Fyrri greinSigríður safnar fyrir keppnisferð til Bandaríkjanna
Næsta greinSjálfbær uppbygging ferðaþjónustu á landinu öllu