Þriðjudaginn 2. september opnar ný myndlistarsýning í galleríinu Undir stiganum í Þorlákshöfn, undir yfirskriftinni Minni kvenna, en þar sýnir myndlistarkonan Fríður Gestsdóttir verk sín.
Fríður lærði í Myndlistarskóla Kópavogs og hefur lokið fjölmörgum námskeiðum, bæði hér heima og erlendis. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og verið með einkasýningar, meðal annars í Turninum á Smáratorgi og Bókasafni Kópavogs.
Fríður býður öllum sem skoða sýninguna að taka þátt í happdrætti en í lok september mun hún draga nafn einhvers sem skrifar í gestabókina og hlýtur viðkomandi málverk í verðlaun.
Opnun sýningarinnar Minni kvenna er kl. 17 og verður hægt að skoða sýninguna á opnunartíma Bæjarbókasafns Ölfuss út septembermánuð, safnið býður upp á kaffi og konfekt, öll velkomin!
