Minni eilífðarinnar

Tónlistarkonurnar Heloise Pilkington og Ragnheiður Gröndal koma fram á tónleikum hátíðarinnar Englar og menn í Strandarkirkju í Selvogi þann 16. júlí. Yfirskrift tónleikanna er Minni eilífðarinnar.

Á efnisskránni verður ensk og íslensk tónlist, bæði ný og gömul. Tónlist Heloise hefur sterka tengingu við gyðjutrú og eru mörg laga hennar ákall til ýmissa gyðja og eiginleika sem þær búa yfir. Hún á sér einnig bakgrunn í enskri þjóðlaga- og miðaldatónlist. Tónlist Ragnheiðar er í senn hefðbundin og nýstárleg, íslensk og alþjóðleg og er undir áhrifum frá heimstónlist, djassi og poppi. Með þeim á tónleikunum verða þeir Gerry Diver og Guðmundur Pétursson.

Gerry Diver er ættaður frá Írlandi en starfar sem virtur upptökustjóri í London og hefur unnið með Tom Robinson, Lisu Knapp og fjölmörgum öðrum. Hann leikur aðallega á fiðlu og hefur djúpar rætur í enskri og keltneskri tónlistarhefð. Guðmundur Pétursson er flestum kunnugur sem einn af helstu gítarleikurum landsins. Hann hefur einnig gefið út eigin tónlist og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónskáld.

​Englar og menn ​býður upp á tónleika alla sunnudaga í júlí og er hátíðin nú haldin í fimmta sinn. Í Strandarkirkju er einstakur hljómburður og helgi sem skapar hlýja stemningu og nálægð. Flytjendur sumarsins eru með það í huga við val á efnisskrá sinni sem er afar fjölbreytt og er í takt við anda og sögu staðarins.

Fyrri greinUmferðartafir austan við Hellu
Næsta greinSaurmengun í Ölfusá sprengir skalann