„Mikilvægt að halda ljóðum að börnum“

Ingibjörg með barnaljóðabókina sína Dásamleg dýr. Ljósmynd/Aðsend

Blokkflautu- og grunnskólakennarinn Ingibjörg Birgisdóttir sendi nýlega frá sér sína þriðju barnaljóðabók sem ber heitið Dásamleg dýr. Bókin inniheldur 12 ljóð um íslensk dýr í sveit og náttúru.

„Þegar ég var í KHÍ, að verða þrítug, kynntist ég ljóðabókunum hans Þórarins Eldjárns og varð alveg heilluð af skrifum hans fyrir börn. Ég ákvað að skrá mig í ljóðaáfanga og komst að því að ég get alveg samið ljóð,“ segir Ingibjörg í samtali við sunnlenska.is.

Sem barn lék Ingibjörg sér oft að því að semja bulltexta við lög. „Ég sagðist vera að skjalda,“ segir Ingibjörg kímin. „Textarnir voru með endarími en ég hafði aldrei áður reynt fyrir mér eftir íslensku hefðinni, svona í bundnu máli með ljóðstöfum og þess háttar. Þegar kom að því að velja lokaverkefni ákvað ég að gera ljóðabók fyrir börn.“

Ingbjörg samdi tíu ljóð og gaf út bókina Skýjamyndir. „Ég fór alla leið með verkefnið, réði teiknara í gegnum netið og lét prenta bókina með harðri kápu. Skýjamyndir komu út vorið 2007, þegar ég útskrifast úr KHÍ.“

Vildi vera með í jólabókaflóðinu
Þegar Ingibjörg var komin í ljóðahaminn þá var erfitt að stoppa hana. „Þetta var svo gaman að ég ákvað að skella mér í að semja strax næstu bók. Eitthvað af ljóðum samdi ég strax, tók slurk 2014 og svo bara leið tíminn. Ég gekk í gegnum veikindi á árunum 2023 og 2024 og þá fann ég að lífið er allt of stutt til þess að láta ekki drauma sína rætast, svo að ég opnaði fyrir það að klára bók númer tvö.“

Önnur bók Ingibjargar kom út í desember í fyrra og fékk nafnið Draumar. „Titillinn er afar táknrænn fyrir það sem ég var að ganga í gegnum, sami teiknari og einnig 10 ljóð. Um það leyti sem hún var að verða til sá ég að ég næði ekki jólabókaflóðinu það árið en mér lá á að koma henni frá mér. Ég ákvað að ég skyldi semja aðra bók og vera með í jólabókaflóðinu á þessu ári. Ég vinn ágætlega undir pressu svo ég setti mér tímaramma fram á vorið.“

Ingibjörg hefur gefið út þrjár barnaljóðabækur. Ljósmynd/Aðsend

Sveitastelpa sem elskar dýr
Sem fyrr segir heitir nýja bókin Dásamleg dýr. „Ég ákvað að í bókinni yrði ákveðið þema að þessu sinni en það er í fyrsta sinn sem ég geri það. Þemað íslensk dýr í sveit og náttúru varð fyrir valinu. Ég er svolítil sveitastelpa í mér og elska dýr. Nafnið á bókinni er tekið úr síðasta ljóðinu í bókinni Kýrnar. Ljóðið byrjar svona:

Hér sérðu dásamleg dýr,
dæmigerð húsdýr í sveit.
Þetta eru kollóttar kýr,
komnar í túnið á beit.

Það tók Ingibjörgu níu mánuði að fullvinna bókina.„Það var ótrúlega gaman að semja þessi ljóð. Ég var búin að ákveða hvaða dýr fengju að vera með í bókinni og eru það íslensku húsdýrin ásamt músinni og krumma. Svo komu þau bara í þeirri röð sem þau vildu koma. Ég tók mér tíma í að ákveða sögusvið, sögumann og þess háttar fyrir hvert dýr. Oft tókst mér ekki að byrja fyrr en ég var búin að finna það ljóðform sem hentaði best. Í ferlinu talaði ég oft um ljóðin/dýrin eins og persónur. „Haninn er mættur á svæðið“, „hundurinn bara vill ekki fæðast“ og svo framvegis.“

Íslensku dýrin sem urðu til í Argentínu
Dásamleg dýr er fallega myndskreytt með myndum eftir Natalia Yacuzzi. „Hún myndskreytir allar bækurnar mínar. Hún er frá Argentínu og við höfum aldrei hist. Öll okkar samskipti fara fram í tölvupósti. Ég réði hana í gegnum netið til að teikna í fyrstu bókina mína. Ég endurvakti kynni mín við hana þegar ég ákvað að klára Drauma og hún var til í verkefnið.“

Ingibörg segir að hún hafi velt fyrir sér hvort Natalia væri rétta manneskjan fyrir Dásamleg dýr, þar sem þetta voru íslensk dýr og íslensk náttúra. „Ég ákvað að láta á það reyna því mér finnst myndirnar hennar svo dásamlega fallegar og gott að vinna með henni. Ég sendi henni myndir af íslenskri náttúru og íslenskum dýrum og útkoman fór langt fram úr mínum væntingum.“

Alltaf haft gaman að börnum
Dásamleg dýr eru skrifuð fyrir yngstu lesendurna rétt eins og fyrri bækur Ingibjargar. „Ég hef alltaf haft gaman að börnum. Ég er grunnskólakennari og Suzuki blokkflautukennari svo ég er vön að vinna með ungum börnum. Ég er einnig mamma og hef alið upp fjögur börn. Mér finnst mikilvægt að halda ljóðum að börnum og er myndunum ætlað að laða unga lesendur að ljóðalestri.“

„Ég held að þessi bók eigi erindi inn á öll heimili þar sem eru börn og einnig inn á alla leikskóla og grunnskóla landsins. Ég held þó að allir hafi gaman að ljóðunum mínum svo ég myndi segja að bókin ætti erindi til allra sem hafa gaman að dýrum og ljóðum.“

„Bókin fæst hjá mér og á skjalda.is. Hún fæst einnig í Bókakaffinu á Selfossi og í Reykjavík. Einnig er hægt að ná sér í áritað eintak á kynningarafslætti í Útgáfuhófi á Bókasafninu á Selfossi 1. nóvember klukkan 11:00,“ segir Ingibjörg að lokum.

Fyrri greinFramúrskarandi starf í Hveragerði
Næsta greinKerlingarfjöll Highland Base fær Michelin-lykil