Mikil saga á bak við hvert verk

Berglind við opnun sýningarinnar í Listagjánni. Ljósmynd/Aðsend

Myndlistarkonan Berglind Björgvinsdóttir sýnir þessa dagana í Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi.

„Sýningin heitir Lífið er abstrakt og gleðin líka og sýnir okkur að lífið er svo sannarlega allskonar. Ef við erum alltaf að bíða eftir að allt verði fullkomið þá náum við ekki að njóta í núinu. Lífið getur verið erfitt á tímum, en við þurfum að hafa fyrir því að temja okkur það hugarfar að búa til hamingjuna sjálf,“ segir Berglind í samtali við sunnlenska.is.

„Viðtökurnar við sýningunni hafa verið ótrúlega góðar – ég hef fengið gríðarlegar viðtökur. Eitt verk er selt og hef fengið nokkur símtöl um önnur verk og mikill áhugi er hjá fólki. Það er alltaf gaman þegar fólki líkar það sem maður er að gera, það er ákveðið gleðiboozt,“ segir Berglind sem málar undir listamannsnafninu BBart.

Alltaf gaman að efla sjálfan sig
Berglind segir að verkin hennar séu öll gerð með mismunandi tækni, litum, áferð og tilfinningum. „Það er mikil saga við hvert verk og ég er ótrúlega ánægð með hvert og eitt einasta verk,“ segir Berglind sem er með tíu abstrakt verk á sýningunni.

„Ég var í Myndlistarskóla Kópavogs sem barn, fór á nokkur námskeið þar. Móðir mín er listakona og ég ólst upp í kringum mikla myndlist. Ég hef sjálf farið á fullorðinsárum á teikninámskeið, olíu og vatnslitunarnámskeið. Það er alltaf gaman að efla sjálfan sig en mesti lærdómurinn er það maður bara prófar sig áfram.“

„Ég hef mikinn áhuga á list, sérstaklega myndlist, og ég hvet alla sem hafa áhuga á list að kíkja á sýninguna. Jafnvel þó fólk hafi ekki áhuga á list þá er alltaf gaman að fara á myndlistarsýningar, ég mæli sjálf með því,“ segir Berglind að lokum.

Sýningin stendur til 31. ágúst.

Fyrri grein89% foreldra fylgjandi símalausum skóla
Næsta greinMisstigu sig í markaleik