Mikið um að vera á Sólheimum

Það verður mikið um að vera á Sólheimum í Grímsnesi á þjóðhátíðarhelgi Íslendinga. Í dag verða tónleikar og fræðsludagskrá.

Í dag kl. 14 verða tónleikar í Sólheimakirkju með hljómsveitinni Blágresi. Tónlist Blágresis er í þjóðlagastíl og undir áhrifum frá amerískum þjóðlagasöngvum frá sjötta áratugnum.

Eftir tónleikana, eða klukkan 15:00, verður fræðsluerindið Að upplifa og njóta náttúrunnar í Sesseljuhúsi. Þar mun Helena Óladóttir umhverfisfræðingur og kennari veitir fólki innsýn í útinám og náttúruleiki í gönguferð með útikennsluívafi.

Sunnudagurinn 17. júní er ekki einungis þjóðhátíðardagur Íslendinga heldur einnig Dagur hinna villtu blóma. Sesseljuhús ætlar að fagna þeim degi með fræðslugöngu um villt blóm í landi Sólheima. Valgeir Bjarnason mun stýra göngunni og hefst hún klukkan 15:00 frá Sesseljuhúsi.

Margvíslegar sýningar eru í gangi á Sólheimum í tilefni af menningarveislunni. Sýningin „Svona gerum við“ er í Ingustofu, þetta er samsýning vinnustofa Sólheima. Í Íþróttaleikhúsinu er ljósmyndasýningin „Svona erum við“ en Pétur Thomsen, ljósmyndari, tók myndir í raunstærð af öllum íbúum Sólheima við störf og leiki. Í Sesseljuhúsi er sýning um vistvænt skipulag auk margvíslegs fróðleiks um umhverfisvernd og sjálfbærni.

Verslunin Vala og kaffihúsið Græna kannan og sýningarnar opin alla daga vikunnar milli 9:00 – 18:00 virka daga og 12:00 – 18:00 um helgina. Ókeypis á alla viðburði og sýningar.