Mikið sungið í Þorlákshöfn

Sl. föstudag bauð sönghópurinn Tónar og Trix til samkomu í Þorlákshöfn.

Gestirnir voru kórinn Hringurinn úr Rangárþingi, kór eldri Hrunamanna og sönghópur Hjördísar Geirs frá Hæðargarði í Reykjavík. Samankomin var þetta 170 manna hópur sem hittist Þorlákskirkju.

Rán Gísladóttir, kirkjuvörður, tók á móti hópnum og rakti sögu kirkjunnar og kirkjugarðsins. Sú saga hófst árið 1974 þegar bygggður var fyrsti hluti garðsins en nokkrum árum síðar var byrjað á byggingu sjálfrar kirkjunnar. Það vakti athygli gesta þegar Rán greindi frá því að allir þorpsbúar, fyrirtæki og félög í Þorlákshöfn hjálpuðu til við byggingu kirkjunnar. Með sameiginlegu átaki tókst að ljúka kirkjubyggingu og í dag er Þorlákskirkja skuldlaus.

Tónlistarhópurinn Tónar og Trix hóf síðan tónlistardagskrána undir stjórn Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur en hópurinn bæði söng og spilaði á ýmis hljóðfæri. Næst söng kór eldri Hrunamanna nokkur lög undir stjórn Stefáns Þorleifssonar, þar á eftir kom fram kórinn Hringurinn en honum stjórnaði Haraldur Júlíusson og í lokin stjórnaði Hjördís Geirs sönghópnum sínum og spilaði einnig með á gítar. Í lokin sungu allir tónlistarhóparnir saman lögin Hagavagninn og Gordjöss sem Páll Óskar Hjálmtýsson gerði frægt.

Þegar hér var komið í dagskránni og gestir komu út úr kirkjunni var sólin farin að skína og speglaðist fallega í sjónum. Haldið var í Ráðhúskaffi þar sem gestir áttu saman einstaklega notalega stund. Margir ættingjar hittust eftir langan tíma og víða mátti heyra setninguna „voðalega er langt síðan við sáumst síðast“.

Borið var fram kaffi og meðlæti að lokum kynnti Hjördís kántrý danshóp. Hópurinn dansaði nokkra kántrý dansa og var stemmningin eins og gerist á góðu sveitaballi.

Texti frá Rögnu Erlendsdóttur á olfus.is

Fyrri greinSelfyssingar versla í heimabyggð
Næsta greinÞrettán milljón króna framlag í íþróttasvæðið