Miðasala gengur vel á útgáfutónleika Einars Bárðar

Einar Bárðar og félagar á sviðinu í Bæjarbíói í Hafnarfirði fyrr í vetur. Ljósmynd/Aðsend

Næstkomandi föstudag kemur í verslanir hljómplatan Myndir en þar er um að ræða upptökur af vinsælustu lögum Einars Bárðarsonar.

Einar ætlar að fagna útgáfu plötunnar með sögustund og „singalong“ tónleikum í Hvíta húsinu á Selfossi föstudagskvöldið 8. febrúar og svo í Bæjarbíói í Hafnarfirði, laugardagskvöldið 9. febrúar, ásamt fríðu föruneyti. Miðasala er hafin á báða tónleikanna á midi.is.

Einar fagnaði 20 ára höfundarafmæli á síðasta ári og fóru upptökur fram allt síðasta ár undir stjórn Þóris Úlfarssonar. Í fyrravor voru 20 ár frá því lagið „Farin“ kom út með hljómsveitinni Skítamóral en lagið varð þeirra allra vinsælasta og sló í gegn nánast á einni nóttu. Svo fylgdu lögin með eitt af öðru; Birta, Spenntur, Myndir, Ennþá, Ég sé þig og fleiri og fleiri.

„Ég á þessum og öðrum listamönnum allt að þakka þegar kemur að minni aðkomu í tónlist. Sagan hefur oft snúið því þannig að Skítamórall eigi mér margt að þakka en það er þver öfugt. Ég á þeim allt að þakka. Þeir veðjuðu á fyrsta lagið mitt þegar frægðarsól þeirra var fyrir alvöru að taka á loft og ef þeir hefðu ekki valið að gera Farin að fyrsta útvarpslagi af plötunni Nákvæmlega, þá veit ég ekki hvernig líf mitt hefði þróast. Þannig að ég á þeim nánast allt að þakka,“ segir Einar.

Nafn nýju plötunnar, Myndir, er vitaskuld tilvísun í eitt þekktasta lag Einars en um leið eru lögin hversdagslýsingar á lífi fólks eða myndir af lífi þess, eins og höfundurinn útskýrir nafngiftina. Meðal annarra flytjenda á plötunni eru Sigga Beinteins, Magni, Birgitta Haukdal, Friðrik Ómar, Stefán Hilmarsson, Einar Ágúst, Gunni Óla, Ingó, Karítas Harpa, Birgir Steinn og þá syngur Klara dóttir Einars lag á plötunni sem upprunalega var flutt af Nylon flokknum.

„Svo er það nú þannig að lífið fer í hringi. Steinunn Camilla sem var í Nylon flokknum hjá mér er eiginlega orðin hálfgerður umboðsmaður hjá mér og er að vinna í að aðstoða mig við útgáfuna á þessum disk en er bæði gaman og er ég í góðum höndum líka,“ segir Einar ennfremur.

Úrval söngvara kemur fram með Einari á tónleikunum í Hvítahúsinu á föstudagskvöld og hljómsveitina skipa þeir Þórir Úlfarsson á píanó og hammond, Eiður Arnarsson á bassa, Hannes Friðbjarnarson á trommur og þeir Kristján Grétarsson og Pétur Valgarð Pétursson á gítara.

Fyrri greinHætt við lokun á Hellisheiði og Þrengslum
Næsta greinDagný aftur til Portland Thorns