Miðasala á tónleika Unnar Birnu & Bjössa Thor hófst í dag

(F.v.) Skúli, Björn, Unnur Birna og Sigurgeir Skafti. Ljósmynd/Aðsend

Hljómsveit Unnar Birnu og Bjössa Thor verður á miklu ferðalagi um landið næstu misserin. Meðal annars eru framundan tónleikar í Hveragerði, á Hvolsvelli og Selfossi.

Laugardaginn 29. febrúar spila þau í Skyrgerðinni í Hveragerði, 7. mars á Midgard Base Camp á Hvolsvelli og þann 14. mars í Tryggvaskála á Selfossi. Miðasalan fyrir tónleikana í Midgard og Tryggvaskála hófst á tix.is í dag.

Fræknir sendiherrar íslenskrar tónlistar

Unni og Björn þarf varla að kynna fyrir tónlistaráhugfólki né öðrum, þau hafa farið allvíða hérlendis sem og verið fræknir sendiherrar okkar Íslendinga á erlendri grundu með til að mynda með Jethro Tull, Chicago, Robben Ford, Robin Nolan o.s.frv.

Fyrir hartnær ári síðan settu þau saman band og hafa ferðast víðsvegar um landið við gífurlega góðar undirtektir. Með í för eru tveir af bestu fulltrúum Hagahverfisins á Selfossi, þeir Skúli Gísla á trommur og Sigurgeir Skafti á bassa. Mikil spenna er í herbúðum hljómsveitarinnar og tilhlökkun að spila fyrir Sunnlendinga og nærsveitunga.

Síðast var skálinn kjaftfullur
Tónleikaröðin nú á vetrarmánuðum inniheldur hina ýmsu stíla meðal annars blús, swing, django, smá kántrí, líkast til rokk, að öllum líkindum Jethro Tull progg og mögulega smá pop. Það er því í raun ekki alveg hægt að svara hvert tónleikarnir munu leiða hljómsveitina í stílum og lögum. En eitt er víst að það verður mikið fjör og mikið gaman.

Hljómsveitin kom fram í Tryggvaskála fyrir ári síðan og þá var skálinn gjörsamlega kjaftfullur, þannig að mælt er með að fólk fjárfesti í miða sem fyrst.

Fyrri greinVeira í tómatarækt í Evrópu
Næsta grein„Líður alltaf svo vel nálægt sjónum“