Metmæting á upplestrarkvöld

Það var staðið út úr dyrum á upplestrarkvöldi í Bókakaffinu á Selfossi í kvöld þegar sjö höfundar lásu upp úr nýjum ritverkum.

Upplestrarkvöldin hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og skipa fastan sess hjá mörgum bókaunnendum. Að sögn Bjarna Harðarsonar, bóksala, hafa þó aldrei fleiri mætt en í kvöld.

„Hér var hið svokallaða vestfirska met slegið, en gamla metið var sett á Vestfirðingakvöldi fyrir nokkrum árum þar sem 67 gestir mættu. Í kvöld hlýddu hins vegar 69 manns á upplesturinn og nánast allir fengu sæti. Þetta var mjög vel heppnað,“ sagði Bjarni en upplestrarkvöldin verða alla næstu fimmtudaga til 18. desember.

Í kvöld lásu Kristín Steinsdóttir úr nýrri bók sinni Vonarlandið, Guðrún Guðlaugsdóttir úr spennusögunni Beinahúsið, Jóhanna S. Hannesdóttir úr bók sinni 100 heilsuráð til langlífis, Ófeigur Sigurðsson úr bók sinni Öræfi, Bjarni Harðarson úr Króníku úr Biskupstungum, Finnbogi Hermannsson úr bókinni Illur fengur og Margrét Þ. Jóelsdóttir úr bókinni Ódáinsepli.

Fyrri greinFjórir bræður í Karlakór Hreppamanna
Næsta greinKindahræ á víðavangi í Ölfusinu