Messað í ML og Bítlarnir með í anda

Búið er að stilla upp fyrir messuna í N-stofu Menntaskólans að Laugarvatni. Dagur Fannar er á innfelldu myndinni. Ljósmynd/Pálmi Hilmarsson

Einstakur viðburður verður á páskadag því morgunmessan í Skálholtsprestakalli mun fara fram í Menntaskólanum að Laugarvatni, þar sem framkvæmdir standa enn yfir í Skálholtskirkju.

Messan hefst kl. 8 en sr. Dagur Fannar Magnússon, sóknarprestur, mun prédika og þjóna fyrir altari og félagar úr Söngkór Miðdalskirkju og Skálholtskórnum munu leiða almennan safnaðarsöng undir stjórn Jóns Bjarnasonar organista.

„Pálmi Hilmarsson, húsvörður í ML, er bæði í Skálholtskórnum og Söngkór Miðdalskirkju og hann hafði séð það fyrir sér að það væri gaman að messa í menntaskólanum. Það er hefð fyrir því að messa klukkan 8 að morgni páskadags í Skálholti og þegar við vorum að leita lausna við því þá sagði Jón organisti að nú væri tækifæri til að láta reyna á þessa hugmynd Pálma,“ sagði Dagur Fannar í samtali við sunnlenska.is.

All you need is love
Messan verður í N-stofu, sem að öllu jafna er tómstundaherbergi nemenda menntaskólans, á neðstu hæð á móti matsalnum. Búið er að setja upp altari í stofunni og á því eru stjakar og gripir í eigu Miðdalskirkju, sem búið var að kaupa fyrir fyrirhugaða kirkju á Laugarvatni á síðustu öld. Altaristaflan er hins vegar óvenjuleg, veggmynd af Bítlunum, sem máluð var af nemendum skólans fyrir mörgum árum.

„Já, altaristaflan er frábær í alla staði, ég hef ekki séð svona áður. Bítlarnir verða með okkur í anda og tónlist þeirra mun hljóma. Inngönguspilið verður All you need is love og ef það er ekki boðskapur kristinnar trúar þá veit ég ekki hvað,“ sagði Dagur Fannar ennfremur.

Eftir messu verður boðið upp á morgunmat í menntaskólanum og páskaeggjaleit fyrir börnin.

Framkvæmdum við Skálholtskirkju átti að vera lokið fyrir páska en nú er stefnt að því að síðustu helgina í apríl geti farið fram tónleikar bæði Kórs Menntaskólans að Laugarvatni og vortónleikar Karlakórs Selfoss. Fyrsta messan í kirkjunni eftir enduropnun verður þann 7. maí.

Sólarupprásarmessa og dramatísk helgistund
Messan í ML er ekki eina óhefðbundna messan í Skálholtsprestakalli um helgina. Kl. 18 í kvöld verður messað við borð í Stóru-Borgarkirkju, þar sem þáttakendur koma með eitthvað á borðið og nýbökuðu altarisbrauði verður deilt og á föstudaginn langa verður mjög dramatísk helgistund í Torfastaðakirkju kl. 18. Á páskadag verður sólarupprásarmessa í Þingvallakirkju kl. 6:15.

Fyrri greinÁrborg úr leik í bikarnum
Næsta greinGul viðvörun: Stormur á föstudaginn langa