Menningarveislan hefst um helgina

Á morgun, laugardaginn 1. júní kl. 13, verður Menningarveisla Sólheima formlega opnuð, en hátíðin er nú haldin í áttunda sinn.

Opnunin hefst við kaffihúsið Grænu Könnuna og verður þaðan gengið á milli sýningarstaða og endað í Sólheimakirkju á tónleikum Sólheimakórsins undir stjórn Lárusar Sigurðssonar.

Samhliða opnun Menningarveislunnar verður verkið Fjörfiskur eftir Jón B. Jónasson (1910 – 1972) afhjúpað af dóttur hans Huldu Ósk í Höggmyndagarði Sólheima.

Fjölbreytt dagskrá verður í boði í allt sumar, tónleikar í Sólheimakirkju alla laugardaga þar sem fjölbreyttur hópur listamanna mun koma fram og má þar nefna Lay Low, Ellen og Eyþór, Björn Thoroddsen og Valgeir Guðjónsson.

Sýningin Staldraðu við verður í íþróttaleikhúsi, sýningin Fuglalíf verður í Ingustofu, Vatn, fræðslu og ljósmyndasýning verður í Sesseljuhúsi auk fræðsluslýsiningar um endurvinnslu. Einnig verður kynnt ormamoltugerð á sýningu Sesseljuhúss og mun Ágúst Backman vera með fræðslu um ormamoltugerð kl. 15 á laugardag í skógræktarstöðinni Ölri.

Fræðsluerindi verða á fimmtudagskvöldum og laugardögum um fjölbreytt efni s.s. sápugerð, býflugnarækt, jurtalitun, garðyrkju og ljósmyndakeppni.

Guðsþjónustur eru í Sólheimakirkju í allt sumar, auk þess sem hægt er að ganga um ljóðagarð, höggmyndagarð og trjásafn. Kaffihús, verslun og Listhús er opið alla daga vikunnar.

Nánari upplýsingar um viðburði Menningarveislunnar má finna á heimasíðu Sólheima. Það eru allir hjartanlega velkomnir á Menningarveislu Sólheima og er aðgangur ókeypis á alla viðburði.

Fyrri greinTveir teknir fyrir veggjakrot
Næsta greinEykt bauð lægst í brúarsmíði