Menningarsalur fyrir ungt fólk

„Þetta verður einskonar menningarsalur fyrir ungt fólk,“ segir Bassi Ólafsson, starfsmaður Pakkhússins, en nú standa yfir framkvæmdir í kjallara ungmennahússins á Selfossi.

Rýmið, sem er 140 fm, mun nýtast starfsemi Pakkhússins á ýmsan hátt en það var áður notað sem geymsla fyrir sveitarfélagið Árborg.

„Hér verður allt frá leikhúsi til kaffihúss. Við verðum með færanlegt svið sem verður hægt að nota víða í salnum og svo verður hægt að loka af eitt rými sem verður til dæmis hægt að nota sem ljósmyndastúdíó,“ segir Bassi.

Starfsfólk hússins notar líka sumarið til að endurbæta og koma upp nýjungum í húsinu. „Við settum upp hljóðver í vetur og hefur það verið vel nýtt. Nú erum að koma upp aðstöðu fyrir fatahönnuði, við erum að koma upp fundaraðstöðu og erum búin að betrumbæta leikjaaðstöðuna svo eitthvað sé nefnt,“ segir Bassi.

Fyrri greinDanskur stúlknakór í Skálholti
Næsta greinVatnslaust í Árborg