Menningarmánuðurinn framundan

Menningarmánuðurinn október er framundan í Sveitafélaginu Árborg með fjölbreytt framboð skemmtana.

Kvæðamannafélagið byrjar 11. október kl. 20 með Árgalakvöldi í leikhúsinu við Sigtún á Selfossi þar sem bæði kornungir og fullþroska kvæðamenn kveða gamlar og nýjar stemmur auk þess að flytja vísur bæði gamlar og nýjar. Frá þeim kemur hér fyrripartur til að botna: Hérna verður kátt í kvöld, kvæðamenn sig þenja. Frítt er inn á Árgalakvöld.

Þann 19. október verður alvöru þýskt Októberfest í Gónhól á Eyrarbakka með hljómsveitinni Glundroða, frítt inn og það er öruggt að það verðu mikil stemmning.

Dagana 12.-25. október verður ýmis dagskrá í tilefni af 160 ára afmæli Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Meðal dagskrárliða verða fjáröflunartónleikar og vígsla á flygli sem er nýlokið að gera við og skólinn hefur nú til varðveislu.

Mánuðurinn verður kvaddur með stæl að hætti fjölskyldunnar úr Byggðarhorni. Byggðarhornsfjör með söng og stemningu úr sveitinni verður í Hvíta Húsinu á Selfossi sunnudagskvöldið 28. október kl. 20, skemmtun sem er fyrir alla fjölskylduna og er frítt inn.

Menningarnefnd sveitarfélagsins hvetur íbúa til að taka góðan þátt í viðburðum mánaðarins.