Menningargangan einn af hápunktum mánaðarins

Listafólk í sveitarfélaginu opnar vinnustofur sínar og gallerí fyrir gestum á laugardag.

Laugardaginn 14. október verður Menningarganga listamanna haldin í annað sinn í Árborg og er hún einn af hápunktum menningarmánaðarins október, sem nú stendur yfir í sveitarfélaginu.

Listafólk í sveitarfélaginu mun opna vinnustofur sínar og gallerí fyrir gestum, leyfa fólki að líta við og skoða afrakstur sköpunar sinnar. Auk listamanna taka Gallerí Listasel, Tískuvöruverslunin Lindin á Selfossi, Skrúfan á Eyrarbakka og Brimrót á Stokkseyri þátt í deginum.

Menningarganga Árborgar var afar vel sóttur viðburður á síðasta ári en þá var hún haldin í fyrsta sinn. Nú verður gestum boðið að njóta listar á sautján stöðum víðs vegar um sveitarfélagið; á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri.

Hátt í hundrað listamenn taka þátt
Málaralist, leirlist, fagurlegra hannaða skartgripi, ljósmyndir og útskurður. Auk þess býðst þátttakendum að hlýða á sögur og hlusta á fallega tóna. Með Menningargöngunni sýna listamenn í verki þann vilja að sameina krafta þeirra frábæru listamanna sem búa í Árborg og bjóða íbúum Árborgar, ferðamönnum og þjóðinni allri að bregða undir sig betri fætinum og gera sér dagamun í #menningarborg.

Fyrir Menningargönguna 2022 var stofnuð Facebooksíðan Menningarvitar í Árborg sem vettvang fyrir listamenn og áhugafólk um listir og menningu til að miðla og njóta gróskumikils menningarlífs í sveitarfélaginu. Áhugasamir um menningarlíf í Árborg eru hvattir til að fylgja síðunni.

Aðgangur á alla viðburði Menningargöngu listamanna er ókeypis.

Fyrri greinÞórsarar sigruðu í hörkuleik
Næsta greinGrímsnes- og Grafningshreppur sveitarfélag ársins 2023