Menningarganga um Hveragerði

Á síðasta sýningardegi sýningarinnar Ár; málverkið á tímum straumvatna, sunnudaginn 17. október bjóða Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga upp á dagskrá.

Dagskráin hefst kl. 13 með gönguferð. Lagt verður af stað frá nýja söguskiltinu í Lystigarðinum og gengið upp með Varmá, yfir göngubrúna, upp brekkuna Ölfusmegin, niður sundlaugarbrekkuna og Reykjamörkina. Á nokkrum vel völdum stöðum verður staldrað við til að njóta umhverfisins og fróðleiks og fallegra ljóða um vatn, ár og straumvötn.

Í Listasafninu verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna og rithöfundurinn margverðlaunaði, Auður Ava Ólafsdóttir, les úr nýju skáldverki sínu ásamt leynigesti. Auður er einnig listfræðingur og sýningarstjóri sýningarinnar og svarar spurningum gesta um hana, en sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga og Listasafns Háskóla Íslands þar sem Auður er safnstjóri.

Hlíf Arndal forstöðumaður Bókasafnsins og Inga Jónsdóttir safnstjóri munu leiða gönguna og sýningarspjallið.

Hægt er að kaupa sér kaffi í Listasafninu. Þar er einnig aðstaða fyrir börn og leskró með ýmsu lesefni um myndlist.

Aðgangur í gönguna og á listasafnið er ókeypis og allir eru velkomnir.

www.listasafnarnesinga.is

Fyrri greinÍsólfur tók við öskubók
Næsta greinSkjálfti stuðningsmannasveit ársins