Menningardagskrá í Bókakaffinu

Bókakaffið. Ljósmynd/Aðsend

Sunnudaginn 14. júní mun Bókakaffið á Selfossi hleypa af stokkunum þematengdri viðburðaröð sem ber heitið Menningarsumarið í Bókakaffinu.

Viðburðirnir sem verða samtals fjórir munu taka mið af fordæmalausu ástandi með fjöldatakmörkunum og því er mikilvægt að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti.

Dagskráin er þrjátíu mínútna löng og verður flutt tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið kl. 14 og í seinna skiptið kl. 15.

Fyrsta dagskrá menningarsumarsins ber yfirskriftina Nú andar suðrið og er hún helguð þýðingum. Inn á milli lestra hljóma svo íslenskir og argentínskir tónar.

Fram koma:

Árni Óskarsson sem les úr þýðingu sinni á spennusögunni Otsjajaníje eftir verðlaunahöfundinn Vladimir Nabokov. Bókin nefnist á íslensku Örvænting og er væntanleg seinna á árinu.

Pamela De Sensi flytur verkin Kveðju eftir Elínu Gunnlaugsdóttur og Tango Etude nr. 3 eftir Astor Piazzolla. Pamela mun einnig lesa ögn úr ítalskri þýðingu bókarinnar Tvöfalt gler sem hefur farið sigurför um heiminn, auk þess sem höfundur hennar, Halldóra Thoroddsen, les brot úr bókinni á íslensku.

Hallgrímur Helgason þýðandi og skáld les úr þýðingu sinni á Óþelló eftir William Shakespeare.

Helga Soffía Einarsdóttir fjallar um þýðingu sína á bókinni Glæpur við fæðingu eftir Suður-Afríska uppistandarann Trevor Noah, þar sem segir frá uppvexti hans á tímum aðskilnaðarstefnunnar.

Dagskráin er styrk af Miðstöð íslenskra bókmennta og er aðgangur ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Fyrri greinLögðu hald á umtalsvert magn af fíkniefnum og peningum á Selfossi
Næsta greinUnglingalandsmótið verður haldið á Selfossi