Meiri Kanill á leiðinni

Kanill, ljóðabók Sigríðar Jónsdóttur í Arnarholti í Biskupstungum, er uppseld hjá útgefanda sem hefur ákveðið að prenta 700 eintök til viðbótar.

Bók Sigríðar var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna sem afhent voru um síðustu helgi en sala bókarinnar tók kipp eftir viðtal við Sigríði í Kiljunni á RÚV.

“Við erum mjög ánægð með viðtökurnar og þó svo að upplag bókarinnar hafi verið í stærra lagi miðað við ljóðabækur þá er það nú uppselt. Þessa dagana er verið að undirbúa endurprentun sem verður komin í búðir um næstu mánaðarmót,” sagði Bjarni Harðarson, útgefandi bókarinnar, í samtali við Sunnlenska.