Megasarafmæli á menningarkvöldi

Bókakaffið á Selfossi efnir til menningardagskrár í tilefni af Vori í Árborg í kvöld, föstudagskvöldið 24. apríl.

Ari Trausti Guðmundsson ljóðskáld kynnir þar nýja ljóðabók sína, Fardaga sem gefin er út af Bókakaffinu.

Óttar Guðmundsson kynnir metsölubókina Viðrini veit ég mig vera sem fjallar um skáldið og listamanninn Megas. Bókin kom út nú fyrir nokkrum dögum í tilefni af sjötugs afmæli Megasar. Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona stígur á stokk og syngur nokkur af lögum meistarans.

Þá mæta á staðinn rithöfundar frá Gullkistunni á Laugarvatni en þar dvelja erlendir listamenn við störf sín. Jón Özur Snorrason kynnir Gullkistuna og hin erlendu skáld.

Húsið verður opnað klukkan 20 en upplestur hefst klukkan 20:30. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Bókaútsala á staðnum í tilefni af Vori í Árborg.

Fyrri greinTveir nýir prestar frá 1. ágúst
Næsta greinMikilvægt að sleppa takinu á kvíðanum