„Markaðurinn verður æðislegur“

Stefnumót við Múlatorg. Ljósmynd/Aðsend

Laugardaginn 17. júlí kl. 11-17 stendur Sumarhúsið og garðurinn fyrir árlegri sumarhátíð á Selfossi, Stefnumóti við Múlatorg. Hátíðin hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2006 og laðað að sér fjölda gesta.

Á Stefnumóti við Múlatorg verður boðið upp á lifandi tónlist, allra handa fræðslu og uppifun. Í ár koma fram þau Unnur Malín Sigurðardóttir söngvaskáld og tónlistarmaður og Linus Orri Gunnarsson Cederborg fjöltónlistarmaður. Unnur Malín leikur frumsamin lög og flytur tóngjörning sem spunninn er á staðnum. Linus Orri er fjöllistamaður og leikur á fjölda hljóðfæra, en sum þeirra býr hann til sjálfur. Með honum kemur fram Josie Anne þjóðlagadanskennari sem kennir skoskan þjóðdans. Þá munu fagmenn í garðyrkju og skógrækt og handverksfólk fræða gesti.

„Markaðurinn verður æðislegur og mjög fjölbreyttur í ár. Við erum í góðri samvinnu við sveitafélagið Árborg og fáum að láni söluskúra hjá þeim og setjum upp markaðstjöld fyrir sölufólkið. Við bjóðum handverksfólki og listafólki að selja og kynna vöru sína. Einnig þeim sem stuðla að endurnýtingu og fyrirtækjum með vörur fyrir garð- og sumarhúsaeigendur,“ segir Auður I. Ottesen, skipuleggjandi hátíðarinnar.

Á sumarhátíðinni er veitt árlega viðurkenningu Sumarhússins og garðsins, Rósin fyrir framkvæmdir, hugmyndaauðgi og áhugaverðar útfærslur í garðinum eða sumarhúsalandinu.

Sumarhátíðin er sannkölluð veisla fyrir fagurkera, tónlistarunnendur og garðáhugafólk. Sem fyrr segir hefst hún klukkan 11 og stendur til 17 og er opin öllum.

Fyrri greinBjörgunarsveitir sækja göngufólk í Kerlingarfjöll
Næsta greinÁrborg varðist Ísbirninum – Stokkseyri náði í stig