Marius sýnir í bókasafninu

Marius Borns sýnir verk sín í Bókasafninu í Hveragerði. Á sýningunni eru m.a. blýantsteikningar, vatnslitamyndir, olíumálverk og myndir gerðar með airbrush tækni.

Marius er frá Þýskalandi en hefur búið á Íslandi síðan 2008, fyrst í Súðavík þar sem hann sá um unglingastarf í félagsmiðstöðinni, síðan á Selfossi og loks í Hveragerði frá apríl 2010.

Hann nam við Die Hochschule für bildende Künste í Kassel í Þýskalandi, en þar stundaði hann grunnnám fyrir innanhússarkitektúr. Hann hefur teiknað frá barnæsku en fór að mála eftir að hann flutti til Íslands. Marius er sjálfmenntaður í málun, en þeir listamenn sem hafa haft mest áhrif á hann varðandi málun og kennt honum mest eru Pierre-Alain Barichon, Thomas Hartert og konan hans, Karen Borns. Þau eiga einnig myndir á sýningunni.

Marius hefur áður sýnt verk sín í Súðavík og á Salatbarnum í Reykjavík. Hann var að undirbúa sýningu í Eden þegar það brann, en hann og Thomas misstu þar nokkrar myndir.

Sýningin er sölusýning og er opin um leið og safnið, mánudaga-föstudaga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14.

Fyrri greinÞrennt flutt á sjúkrahús
Næsta greinHreinræktað Europopp frá Ingó