Maríumessa Machauts flutt í Skálholti

Ljósmynd/Cantores Islandiae

Áhugaverðir tónleikar verða í Skálholtskirkju í kvöld, mánudaginn 11. mars kl. 20:00 þegar sönghópurinn Cantores Islandiae flytur Maríumessu (fr. Messe de Nostre Dame) eftir franska miðaldatónskáldið Guillaume de Machaut.

Maríumessa Machauts er eitt helsta meistaraverk miðaldatónlistar og framúrskarandi dæmi um sérstæða fjölröddun sinnar tíðar, sem er afar ólík þeirri fjölröddun sem síðar þróaðist í vestrænni tónlist.

Á tónleikunum verður einnig fluttur gregorssöngur sem ásamt messu Machauts myndar eina heild. Á tónleikunum munu miðaldafiðla, blokkflautur og endurreisnarbásúnur (sackbut) hljóma með kórsöngnum.

Flytjendur auk Cantores Islandiae eru Lilja Dögg Gunnarsdóttir, mezzósópran, Helga Aðalheiður Jónsdóttir, blokkflautur, Hildigunnur Halldórsdóttir, miðaldafiðla, Ingibjörg Azima Guðlaugsdóttir, sackbut, Jens Bauer, sackbut.

Tónleikarnir eru ókeypis og þið eruð öll hjartanlega velkomin!

Fyrri greinLyfjaval opnar á Selfossi
Næsta greinTveir Íslandsmeistaratitlar á Selfoss