Maria og Guðni Már sýna í Hveragerði

Maria Lebedeva og Guðni Már Henningsson opna myndlistarsýningu á Bókasafnininu í Hveragerði í dag, miðvikudag kl. 17:30. Við opnunina flytur Rúnar Þór Pétursson nokkur lög.

Maria Lebedeva er fædd í Murmansk í Rússlandi. Hún hefur búið á Íslandi í fjögur ár og stundað íslenskunám ásamt því að sinna móðurhlutverkinu. Hún starfar nú sem leiðbeinandi á leikskólanum Akri. Maria stundaði nám í menntaskóla með sérstakri áherslu á myndlist. Hún hefur dálæti á impressionistunum Monet og Degas og íslensku málurunum Kjarval og Eiríki Smith og er fastagestur á Kjarvalsstöðum og ýmsum öðrum söfnum. Maria er einnig góður ljósmyndari og hyggur á nám í þeim fræðum. Maria sýndi verk sín í Murmansk á skólaárunum, en þetta er fyrsta sýning hennar á Íslandi.

Guðni Már hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður á RÚV í tuttugu ár. Hann er fæddur í Reykjavík en á ættir að rekja til Dalvíkur og Hafnarfjarðar. Guðni hefur sent frá sér eina ljóðabók, Ljóð handa (1992), ásamt því að skrifa texta fyrir tónlistarmenn. Hann hefur verið í hljómsveitinni TASS sem sendi frá sér geisladiskinn Almúgamenn (2012). Guðni Már er ómenntaður í myndlist fyrir utan að hafa sótt einkatíma hjá Steinunni Helgu Sigurðardóttur árið 1990. Hann skrifar eigin ljóð á alla kanta hvers málverks. Málararnir Van Gogh og Bjartmar Guðlaugsson eru í sérstöku uppáhaldi. Þetta er fyrsta sýning Guðna.

Guðni Már og Maria kynntust í Pétursborg í Rússlandi fyrir sex árum. Sameiginlegur áhugi þeirra á íslenskri og alþjóðlegri tónlist leiddi þau saman. Þau hafa nú verið gift í fjögur ár og eiga saman dótturina Steinu Elenu, en fyrir átti Guðni dótturina Katrínu Ísafold. Þau búa í Reykjanesbæ.

Sýningin, sem er sölusýning, er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11-14 og stendur til 27. maí.