Þann 20. nóvember hófst jólahátíðin Jól í Árborg, þegar kveikt var á fyrstu jólaljósunum og á jólatrénu Selfossi.
Næstkomandi sunnudag, sem er fyrsti sunnudagur í aðventu, verður kveikt á jólatrjánum við ströndina, kl. 16 á Eyrarbakka og kl. 17 á Stokkseyri. Dansað verður í kringum jólatrén með jólasveinum og öðrum gestum.
Laugardaginn 13. desember munu jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli koma til byggða og heilsa upp á bæjarbúa og nærsveitunga á Brúartorginu í miðbæ Selfoss.
Jólatorgið á Eyrarbakka verður á sínum stað í ár með markaðsstemningu og handverki í jólakofum og í kjallara Rauða hússins. Byggðasafnið verður með opið sömu daga og Jólatorgið, sunnudagana 30. nóvember, 7. og 14. desember frá kl. 13 – 17. Þeirra dagskrá er hátíðleg að vanda.
Jólaböll og áramótabrennur, jólatónleikar og markaðir verða víða og í ár verður spennandi útileikhús fyrir börn í Hallskoti þann 6. desember, sannkallað jólaævintýri.
Íbúar eru hvattir til að kynna sér dagskrá Jól í Árborg og bæta sínum viðburðum við á viðburðadagatalið.
Jólaglugginn 15 ára
Einn af föstum liðum á aðventunni í Árborg er Jólaglugginn, sem verður á sínum stað í fimmtánda sinn en þessi fallega jólahefð hófst árið 2010. Á hverjum degi frá 1.- 24. desember opnar fyrirtæki eða stofnun einn skreyttan jólaglugga sem inniheldur bókstaf. Börn geta tekið þátt í jólaratleik með því að finna einn bókstaf á dag á mismunandi stöðum í sveitarfélaginu. Þau raða bókstöfunum saman og mynda með því vísu sem aðstoðar við að finna rétt svar.
Verðlaun verða veitt þremur börnum með rétt leysta gátu. Sem fyrr opnar fyrsti jólaglugginn á Bókasafni Árborgar á Selfossi en þátttökublöð verður hægt að nálgast á bókasöfnum og í sundlaugum Árborgar.
