Manúela Maggý tekur þátt í Upptaktinum

Manúela Maggý Friðjónsdóttir Morthens Heal. Ljósmynd/SASS

Hellubúinn Manúela Maggý Friðjónsdóttir Morthens Heal, nemandi í Tónlistarskóla Rangæinga og Grunnskólanum á Hellu, verður eini fulltrúi Suðurlands í ár í Upptaktinum.

Upptakturinn er árviss viðburður á vegum Hörpu þar sem ungmenni í 5.–10. bekk eru hvött til að semja tónlist. Þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar.

Lokahnykkur Upptaktsins er svo flutningur verkanna á opnunarhátíð Barnamenningar í Reykjavík þann 24. apríl næstkomandi. Eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands 2024 er þátttaka sunnlenskra barna í Upptaktinum.

Manúela Maggý, sem er 14 ára gömul, er fjölhæf tónlistarkona og skapar alls konar tónlist. Hún sendi inn hljóðupptöku af tónverki í Upptaktinn og kveðst hafa verið afar stolt, glöð og spennt þegar hún fékk fréttirnar um þátttöku. Hópurinn sem komst áfram hefur nú þegar hist og unnið saman í tónlistartengdum verkefnum ásamt að hitta tónskáld og nokkuð ljóst að spennandi dagareru framundan hjá Manúelu Maggý.

Fyrri greinFimmtán búlgarskir listamenn sýna á Laugarvatni
Næsta greinGunnar Kári og Hans Jörgen kveðja Selfoss