Manúela Maggý sigraði í Söngkeppni NFSu

Manúela Maggý Friðjónsdóttir Morthens var kampakát þegar úrslitin voru tilkynnt. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson

Manúela Maggý Friðjónsdóttir Morthens frá Hellu sigraði í Söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem fram fór í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld.

Manúela Maggý vann hug og hjörtu gesta í Iðu og dómnefndarinnar þegar hún flutti lag Sálarinnar hans Jóns míns, Ekkert breytir því.

Í 2. sæti varð Hugdís Erla Jóhannsdóttir, frá Borg í Grímsnesi, með Yungblud-lagið Zombie og í 3. sæti varð Selfyssingurinn Leví Abranja Jónasson sem flutti Pink-Lagið Fucking Perfect.

Rangæingurinn Ásthildur Cesil Bjarkadóttir fékk svo verðlaun fyrir frumlegasta atriðið en hún flutti frumsamið lag, Ég elska þig mamma.

Níu keppendur tóku þátt í keppninni sem er einn af hápunktum félagslífsins í Fjölbrautaskóla Suðurlands ár hvert. keppnin var glæsileg en þema kvöldsins var ’80s og steig unglingahljómsveitin Frú Eydís meðal annars á stokk og skemmti gestum, auk þess sem Dansstúdíó WC var með atriði, hljómsveitin Koppafeiti kom fram og Ronja Lena Hafsteinsdóttir, sigurvegari síðasta árs tók lagið.

Manúela Maggý á sviðinu í Iðu í kvöld. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson
Fyrri greinÞakklæti og árangur, uppbygging og samstarf
Næsta greinFlosareiðin 2016