Málþing á Klaustri: Sagan og framtíðin

Í tilefni 20 ára afmælis Ferðamálafélags Skaftárhrepps verður efnt til málþings um söguna og framtíðinaí ferðamálum dagana 26.- 27. apríl í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri.

Skaftárhreppur er þannig í sveit settur, að bæði Vatnajökulsþjóðgarður og Kötlu Jarðvangur spila stórt hlutverk í ferðamálum dagsins í dag og framtíðarinnar.

Fyrri dagur málþingsins hefst kl. 13:30 með skráningu málþingsgesta og ávarpi frá Ferðamálastofu og Skaftárhreppi.

Sögu ferðamála í Skaftárhreppi verða gerð skil af Jóni Helgasyni í Seglbúðum, áhugamanni um ferðamál í Skaftárhreppi og Ólafíu Jakobsdóttur forstöðumanni Kirkjubæjarstofu. Snorri Baldursson þjóðgarðsvörður á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, Vilborg Arna Gissurardóttir rekstrarstjóri Kötlu Jarðvangs og Davíð Samúelsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands fjalla um hvernig þeirra umhverfi vinnur með ferðaþjónustunni. Berglind Hilmarsdóttir bóndi kynnir verkefnið Opinn landbúnað og Jón Grétar Ingvason formaður Friðar og frumkrafta, ferðaþjónustuklasa Skaftárhrepps, segir frá starfseminni og framtíðarsýn í ferðaþjónustu svæðisins.

Fyrri degi þessa málþings lýkur með ca. klukkutíma gönguferð um nágrenni Kirkjubæjarklausturs með ferðaþjónustufyrirtækinu Slóðum og um kvöldið verður hátíðarkvöldverður og kvöldvaka á Hótel Klaustri.

Seinni dagur málþingsins hefst kl. 9:45 með fyrirlestrum frá sérfræðingum á sviði ferðamála.

Guðrún Helgadóttir prófessor við Háskólann á Hólum fjallar um „Menningu og ferðaþjónustu“. Rannveig Ólafsdóttir sérfræðingur og dósent í ferðamálafræði við Háskóla Íslands fjallar um „Sjálfbærni í náttúrutengdri ferðamennsku“ og Rögnvaldur Ólafsson forstöðumaður Stofnunar rannsóknarsetra Háskóla Íslands fjallar um „Mat á fjölda ferðamanna og dreifingu þeirra í tíma og rúmi“.

Inn í hádegishlé fléttast vinnuhópastarf og samræður þátttakenda um það sem Skaftárhreppur og nágrenni hafa að bjóða hinum ýmsu markhópum, ungum og öldnum, einstaklingum og hópum, Íslendingum og öðrum borgurum heimsins. Hver er sérstaðan, hvað er til staðar og hvað þarf að bæta? Umsjón með með vinnuhópastarfinu hefur Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI þjónustu og ráðgjöf. Loka fyrirlestur dagsins flytur John Swarbrooke, prófessor við Manchester Metropolitan Háskólann í Englandi, en hann er einn af þekktustu fræðingum á sviði markaðsfræði í vistvænum og náttúrutengdum ferðamálum í heiminum í dag.

Málþingið er samstarfsverkefni Ferðamálafélags Skaftárhrepps og Friðar og frumkrafta ferðaþjónustu- og atvinnulífsklasa í Skaftárhreppi.

Dagskrá málþingsins, upplýsingar um gististaði og fleira má finna á www.klaustur.is. Skráning fer fram í síma: 487 4900 og á netfanginu: ferdamalafelag@gmail.com .