Mæmaði hann bara lagið?

Hr. Eydís í hljóðstofu sveitarinnar á Youtube.

Það er stór helgi hjá strákunum í Hr. Eydís, bæði föstudagslag og svo „Alvöru ´80s partý“ á Sviðinu á Selfossi í kvöld og annað kvöld.

Föstudagslagið í dag er óskalag frá fylgjanda hljómsveitarinnar, það er lagið Tarzan Boy með Baltimora. Þetta lag er algjör „one hit wonder“ enda muna Eydís-menn ekki eftir fleiri vinsælum lögum með Baltimora. Baltimora var reyndar undarlegur kokteill, söngvari sveitarinnar var Jimmy McShane frá Írlandi sem reyndar var með tvöfalt ríkisfang og líka ítalskur ríkisborgari. Með Jimmy í Baltimora var hljómborðsleikarinn og útsetjarinn Maurizio Bassi. Sagt er að Bassi hafi í raun sungið Tarzan Boy en að Jimmy hafi verið frontmaðurinn sem „mæmaði“ lagið svona líka listilega. Jimmy var reyndur og góður dansari svo þetta hefur kannski algjörlega verið málið. Orðrómurinn hefur þó ekki verið staðfestur, en hann er mjög þó sterkur.

„Ég man þegar Tarzan Boy var spilað á skólaböllunum í Hagaskóla í gamla daga. Það sungu sko allir með í Tarzan-kaflanum,“ segir Örlygur Smári söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og bætir við: „það reynir reyndar á að taka þennan Tarzan-kafla. Ég þurfti að syngja lagið nokkrum sinnum í röð þegar við æfðum það upp. Ég var algjörlega búinn á því eftir æfinguna. Ég treysti því á að áhorfendur aðstoði mig með lagið á Sviðinu á Selfossi um helgina,“ segir Örlygur og hlær dátt.

Jimmy McShane lést árið 1995. Hann var alinn upp af íhaldssamri fjölskyldu á Norður-Írlandi sem sneri við honum baki þegar hann sem ungur maður kom út úr skápnum. „Það sem sumt fólk getur verið vitlaust og þröngsýnt. Þá er mun betra að vera góð hvert við annað og sýna fólki umburðarlyndi og hlýju,“ segja strákarnir í Hr. Eydís og óska öllum góðrar helgar!

Rás Hr. Eydís á Youtube

Hr. Eydís á Instagram

Hr. Eydís á Facebook

Fyrri greinVörubíll á hliðinni undir Ingólfsfjalli
Næsta greinTilefni til að fagna