„Maður verður að viðhalda gleðinni þegar álagið er mikið“

Frá tónleikunum í Tryggvaskála á síðasta ári.

Hin árlegi jóladjass Kvartetts Kristjönu Stefáns verður haldinn föstudaginn 13. desember kl. 21:00 í Tryggvaskála á Selfossi. Þetta er í 28. skipti sem jóladjassinn er haldinn á Selfossi.

„Undanfari kvartettsins varð til sumarið 1990. Karl Sighvatsson hammondleikari setti saman band með mér sem söngkonu, Smára Kristjáns á bassa og Árna Áskelssyni á trommur. Við vorum ráðin til að spila djass á sumarhátíðinni „Þorláksmessu“ í Þorlákshöfn,“ segir Kristjana í samtali við sunnlenska.is.

„Eftir það vorum við svo beðin að spila á 17. júní skemmtun í íþróttahúsinu á Selfossi og þá kom Gunnar Jónsson inn í stað Árna á trommur og þá var þessi kvartett Karls Sighvatssonar formlega stofnaður. Við spiluðum nokkur gigg í kjölfarið eftir það og Heiðar sem rak Hótel Selfoss á þeim tíma varð svo hrifin að hann réði okkur að spila djass fyrir matargesti á Hótelinu. En við spiluðum aldrei þau gigg því að Kalli lést í bílslysi 2. júní 1991,“ segir Kristjana.

Jóladjassinn verður til
Kristjana segir að seinna sama ár hafi þau ákveðið að setja saman bandið aftur með Vigni sem píanóleikara og undir hennar nafni; Kvartett Kristjönu Stefáns. „Þá í desember spiluðum við fyrstu jóladjass tónleikana. Þannig að árið 2021 verður þetta 30 ára afmælisveisla,“ segir Kristjana en á tónleikunum eru spilar kvartettinn jólalög í þeirra eigin djass- og blúsútsetningum.

Fyrsti jóladjassinn var haldinn árið 1991 á HM Café á Selfossi. „Síðan vorum við á Hótel Selfoss í nokkur skipti. Svo var það Pakkhúsið í nokkur ár. Við vorum eitt ár í Hvíta húsinu en undanfarin ár í höfum við verið í Tryggvaskála,“ segir Kristjana og bætir því við að aðeins einu sinni hafi þau ekki getað spilað. Það var þegar hún og Vignir voru bæði í námi í Hollandi og voru ekki komin heim í tæka tíð fyrir jólin til að halda tónleikana.

Árið 1996 kom svo út geisladiskur með hljómsveitinni sem bar heitið Ég verð heima um jólin. Aðeins örfá eintök eru eftir af þessum diski og verða þau seld við innganginn á tónleikunum. Einnig er hægt að nálgast diskinn á Spotify.

Aðeins örfá eintök eru eftir af þessum diski og verða þau seld við innganginn á tónleikunum.

Ekki bara fyrir djassáhugafólk
Að sögn Kristjönu mætir í grunninn alltaf sama fólkið ár eftir ár. „Samt er auðvitað hreyfing á þessu frá ári til árs enda erum við oftast með gesti og þeir draga mismunandi fólk að,“ segir Kristjana.

Kristjana segir tónleikana vera fyrir alla, ekki endilega bara djassáhugafólk. „Þetta eru jólalög sem allir þekkja þó svo að einstaka frumsamið lag slæðist með. Við reynum að hafa lagalistan fjölbreyttan.“

Tónleikarnir í ár verða með svipuðum sniði og áður. „Reyndar erum við með tvo gesti í ár, þær Guðlaugu Dröfn Ólafsdóttur og Soffíu Stefánsdóttur. Við þrjár ætlum að syngja jólalög í anda Andrews systra, líkt og Borgardætur hafa gert í gengum tíðina. Ég hlakka mikið til,“ segir Kristjana.

Nauðsynlegt að vinna með góðu fólki
Aðspurð segir Kristjana sjálf vera mikið jólabarn. „Ég er svo heppin að geta unnið með vinum mínum í desember, með Kvartettinum á Selfossi, með Eitthvað fallegt (Röggu Gröndal og Svavari Knút) út um allt land og með Jésú litla (Halldóru Geirharðs og Bergi Þór) í Borgarleikhúsinu. Við listamenn erum svo oft að vinna mikið í desember og maður verður að viðhalda gleðinni þegar álagið er mikið og er því nauðsynlegt að vinna með góðu fólki. En samt toppar ekkert það að vera með fjölskyldunni yfir hátíðarnar. Ég ætla halda mitt fyrsta fjölskyldu jólaboð í langan tíma og ég get ekki beðið,“ segir Kristjana glöð í bragði.

Jólabarnið Kristjana segist eiga erfitt með að nefna eitthvað eitt uppáhalds lag af lagaprógramminu. „Ég á mjög erfitt með að gera upp á milli laganna. Samt er titillag plötunar okkar „Ég verð heima um jólin“ lagið sem ég fæ kannski mest hlýtt í hjartað yfir þar sem að það er alltaf fyrsta lag tónleikana og setur tóninn fyrir það sem koma skal. Svo þýddi Guðlaug Elísabet vinkona mín textann fyrir okkur og það gerir lagið ennþá betra,“ segir Kristjana að lokum.

Facebook-viðburður tónleikanna

Fyrri greinHaukur gengur til liðs við Kielce
Næsta greinÞrjú jafntefli á fyrsta degi